Róbert Spanó kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu
Þing Evrópuráðsins kaus í gær Róbert Ragnar Spanó dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Róbert var einn þriggja sem íslensk stjórnvöld tilnefndu sem dómaraefni.
Róbert er skipaður til níu ára og tekur við embætti 1. nóvember 2013. Alls eiga 47 dómarar frá aðildarríkjum Evrópuráðsins sæti í Mannréttindadómstólnum.
Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður árið 1959 á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu og tryggir að aðildarríki Evrópuráðsins virði þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum. Dómstóllinn hefur aðsetur í Strassborg í Frakklandi.
Borgarar í aðildarríkjum Evrópuráðsins geta leitað til mannréttindadómstólsins telji þeir að stjórnvöld hafi beitt þá órétti. Dómstóllinn rannsakar kærur um brot sem honum berast frá einstaklingum eða ríkjum og ef hann telur að ríki hafi brotið gegn ákvæðum sáttmálans þá dæmir hann í málinu.
Dómstóllinn hefur kveðið upp rúmlega 10.000 úrskurði um mannréttindabrot og ber aðildarríkjum Evrópuráðsins skylda til að fara eftir úrskurðum hans.