Ný skýrsla OECD um efnahagsmál á Íslandi
Ný skýrsla Efnhags- og framfarastofnunarinnar (OECD ) um íslensk efnahagsmál var birt í dag, en slíkar skýrslur eru gefnar út á tveggja ára fresti.
Sérfræðingar OECD kynntu skýrsluna á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Helstu niðurstöður og ábendingar skýrslunnar eru eftirfarandi:
Helstu niðurstöður (lausleg þýðing úr skýrslu OECD)
Endurheimt jafnvægis í efnahagslífinu
- Slaki er viðvarandi í peningastefnunni þótt framleiðsla sé aftur að ná langtímaleitni og verðbólga sé enn yfir markmiði.
- Innlend eftirspurn hefur dregist saman á aðlögunartímabilinu, sérstaklega fjárfesting fyrirtækja og heimila, á sama tíma og útflutningur hefur stóraukist. Heildareftirspurn er nú í meiri takt við heildarframboð og samsetning hennar er ásættanlegri.
- Skuldir heimilanna hafa lækkað en eru enn miklar í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir meiriháttar afskriftir. Vanskil hafa minnkað en mörg tekjulág heimili, þ.m.t. þau sem ekki eiga húsnæði sitt, eiga enn í erfiðleikum með að sjá fyrir nauðþurftum og borga af skuldum. Frekari endurútreiknings gengistryggðra lána er að vænta.
- Bankarnir eru að auka útlán sín til heimila (sem eru að hluta til að endurfjármagna lán frá Íbúðalánasjóði) en fyrirtæki telja sig eiga í erfiðleikum með að fjármagna sig.
Gjaldeyrishömlur, rammi peningamálastefnu og fjárhagsstöðugleiki
- Þjóðhagsvarúð er ekki beitt nægilega til að tryggja fjármálastöðugleika.
- Þess eru merki að fjármagnshöft valdi efnahagslegu misvægi.
- Verðbólgumarkmið hefði skilað betri árangri ef því hefði verið fylgt eftir með skilvirkum varúðarreglum og eftirliti.
- Ekki er nægileg samræming og samskipti meðal aðila er móta peningamálastefnuna og þeirra er sinna eftirliti með fjármálakerfinu þar sem ábyrgðarhlutverk og umboð eru ekki nægilega vel skilgreind.
Endurheimt á jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs
- Mikið hefur áunnist í að koma ríkisfjármálum í jafnvægi. Hlutfall ríkisskulda af vergri landsframleiðslu hefur lækkað, en er enn hátt.
- Áhersla hefur til þessa verið á að auka tekjur og skera niður opinberar fjárfestingar í stað almennra rekstrarútgjalda. Slík áhersla eykur hættu á að jafnvægi náist ekki til lengri tíma.
- Ráðgert er að leggja frumvarp um opinber fjármál fyrir þingið fyrir lok þessa árs en það á að stuðla að auknum aga í ríkisfjármálum og bæta umgjörð fjárlagaferlisins.
Skilvirkni ríkisútgjalda - Ríkið endurskoðar ekki útgjöld sín á kerfisbundinn hátt, þótt slík endurskoðun gæti verið gagnleg við að auka skilvirkni og hagkvæmni í ríkisrekstri.
- Mest er hægt að auka skilvirkni á sviði menntunar, þar sem uppsöfnuð útgjöld á nemanda eru mjög há en árangur í meðallagi, og í heilbrigðisþjónustu þar sem þjónusta sérfræðinga og notkun greiningartækja er mikil.
Grænn hagvöxtur
- Ísland er á réttri leið við að ná settum markmiðum varðandi Kyoto-skuldbindingar, en verðmyndun á losunarheimildum er of veikbyggð til að hún nái að mæta framtíðarmarkmiðum.
- Raforkuframleiðslugeta hefur verið aukin til að mæta þörfum aukins útflutnings (aðallega á áli) en auka þarf arðsemi og tekjur af raforkusölu.
Helstu ábendingar
Endurheimt jafnvægis í efnahagslífinu
- Auka aðhald í peningastefnu eftir því sem efnahagslífið nær sér til þess að ná verðbólgumarkmiði og til að draga úr verðbólguvæntingum.
- Beina aðgerðum í skuldamálum heimilanna að heimilum í fjárhagserfiðleikum til að draga úr vanskilaáhættu á sem skilvirkastan hátt. Leggja niður vaxtabætur og taka þess í stað upp niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði fyrir tekjulág heimili til að draga enn frekar úr fjármálastreitu, draga úr mismunun í búsetuúrræðum og hvetja íbúðaeigendur til að auka eiginfé.
- Afnema ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði þegar fjármál heimilanna eru aftur komin í jafnvægi og draga þannig úr hvata til aukinnar skuldsetningar.
- Halda hárri eiginfjárkröfu á viðskiptabankana og stuðla þannig að áframhaldandi endurskipulagningu skulda fyrirtækja.
Gjaldeyrishömlur, rammi peningamálastefnu og fjárhagsstöðugleiki
- Beita þarf þjóðhagsvarúðartækjum, svo sem veðþaki á útlánastarfsemi, til að tryggja fjármálastöðugleika, draga úr útlánasveiflum og styðja við peningastefnuna.
- Miða áætlun um losun fjármagnshafta við aðstæður.
- Verðbólgumarkmiði verði fylgt eftir losun hafta með flotgengi. Dregið verði úr sveiflum með inngripi á gjaldeyrismarkaði.
- Styrkja samstarf og samhæfingu eftirlitsstofnana. Skýra ábyrgð og umboð þeirra til að sinna skyldum sínum að viðhalda fjármálastöðugleika.
Endurheimt á jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs
- Tryggja þarf að jöfnuður náist 2014 eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og að 2% afgangur verði árið 2015 til að skapa svigrúm fyrir niðurgreiðslu skulda. Skapa þarf svigrúm til aukinnar fjárfestingar hins opinbera með auknu aðhaldi í rekstri.
- Gera tímasetta áætlun um niðurgreiðslu skulda til að auka gagnsæi og trúverðugleika.
- Ný lög um opinber fjárlög verði samþykkt á þingi til að auka aga í ríkisfjármálum.
Skilvirkni ríkisútgjalda
- Endurskoða útgjöld ríkisins til að ná fram aukinni hagkvæmni og skilvirkni. Tryggja þannig betri nýtingu fjármuna.
- Stytta skólagöngu á grunnskólastigi og á framhaldsskólastigi, til að auka hagkvæmni og skilvirkni í menntakerfinu.
- Efla heilsugæslustigið og taka upp tilvísanakerfi til að draga úr sérfræðikostnaði og kostnaði við rannsóknir með dýrum greiningartækjum.
Grænn hagvöxtur
- Breikka stofninn fyrir kolvetnisskatt og hækka hann til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
- Auka raforkuvæðingu til útflutningsgreina (sérstaklega til orkufrekra greina) ef viðunandi arðsemi næst. Skattleggja skal auðlindarentu.
- Draga úr áætlaðri hækkun á sérstöku auðlindagjaldi á sjávarútveginn, sérstaklega botnfiskveiðar, þannig að atvinnugreinin standi undir því.