Hoppa yfir valmynd
28. júní 2013 Forsætisráðuneytið

Alþingi samþykkir þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila

Alþingi samþykkti í dag tillögu forsætisráðherra til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda íslenskra heimila. Þar er kveðið á um markvissar aðgerðir til þess að mæta skuldavanda íslenskra heimila, sem til er kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána, sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010. Um er að ræða almennar aðgerðir óháðar lántökutíma með áherslu á jafnræði og skilvirkni úrræða.

Alþingi hefur þegar samþykkt lög sem kveðið er á um í aðgerðaáætlunni um flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldvanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp sem veitir Hagstofu Íslands skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Gert er ráð fyrir að ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna hafa eftirlit með verkefninu í heild en einstakir ráðherrar sem eiga sæti í henni beri ábyrgð á tilteknum aðgerðum. Við vinnuna verður lögð áhersla á að leita eftir víðtækri sátt um þær leiðir sem farnar verða til að ná þeim markmiðum að taka á skuldavanda íslenskra heimila. Þá mun forsætisráðherra í upphafi haustþings 2013 og vorþings 2014 gera Alþingi grein fyrir stöðu vinnslu og framkvæmdar einstakra aðgerða.

„Ég fagna því að Alþingi hafi afgreitt þingsályktunartillöguna sem gerir ráð fyrir því að með heildstæðum hætti verði nú tekið á stöðu mála varðandi skuldavanda heimila hér á landi. Nú förum við á fulla ferð á næstu vikum og mánuðum við að vinna frekar á grundvelli samþykktar Alþingis en um mjög viðamikið og brýnt málefni er að ræða. Við munum reyna til þrautar að koma fram með lausnir sem koma ekki síst til móts við skilvísa skuldara sem hafa lengi mátt búa við óréttlæti og ójafnræði“, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta