Hjúkrunarheimilið Hamrar í Mosfellsbæ vígt í gær
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fagnaði vígslu nýs hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ sem fram fór í gær og segir fjölgun hjúkrunarrýma bráðnauðsynlegt verkefni. Hjúkrunarheimilið hefur hlotið nafnið Hamrar og eru þar 30 einstaklingsíbúðir fyrir aldraða.
Fjölmenni var við vígslu heimilisins í gær en gert er ráð fyrir að fyrstu íbúarnir flytji þar inn í lok sumars. Heimilið er 2.250 m² á tveimur hæðum og skiptist í þrjár einingar með heimilislegu yfirbragði. Á fyrstu hæð eru átta íbúðir ætlaðar einstaklingum með heilabilun og tvær íbúðir þar sem í boði verða hvíldarinnlagnir. Á annarri hæð eru tvær tíu íbúða hjúkrunardeildir. Íbúðirnar eru rúmgóðar og allar með sérbaðherbergi og eldhúskrók. Í hverri einingu er sameiginleg borð- og setustofa. Aðstaða er fyrir starfsfólk í miðjukjarna hússins á báðum hæðum.
Með hjúkrunarheimilinu verður til kjarni í hjarta Mosfellsbæjar sem samanstendur einnig af öryggisíbúðum og endurnýjaðri þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara sem tekin var í notkun nú á vordögum.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði við vígsluna að á komandi árum muni öldruðum fjölga og því sé fjölgun hjúkrunarheimila á landsvísu bráðnauðsynlegt verkefni. Hann sagði skort á rýmum mestan á höfuðborgarsvæðinu. Í máli ráðherra kom fram að ellefu hjúkrunarheimili um allt land eru í byggingu og með þeim fjölgar hjúkrunarrýmum um hundrað og fimmtíu: „Þetta er kostnaðarsamt, vissulega, en við þurfum að gera vel við þennan aldurshóp. Það er alveg ljóst að á komandi árum mun fjölga í honum og við verðum að veita honum þá þjónustu sem hann á skilið og við viljum veita.“