Hoppa yfir valmynd
28. júní 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Sir Michael Marmot fundaði með ráðherra og fulltrúum velferðarnefndar

Sir Michael Marmot og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
Sir Michael Marmot og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra

Íslendingar geta verið stoltir af því að hvergi í heiminum er ungbarnadauði lægri hlutfallslegra en hér á landi og barnafátækt er hvergi minni í Evrópu samkvæmt UNICEF. Þetta kom fram á fundi Sir Michael Marmot með Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, og fulltrúum velferðarnefndar Alþingis á fundi í ráðuneytinu í dag.

Sir Michael Marmot er yfirmaður Institute of Health Equity við University College London (UCL) en stofnunin hefur það markmið að draga úr áhrifum ójöfnuðar á heilsu. Hann hefur stýrt fjölda byltingarkenndra rannsókna og hefur meðal annars yfirumsjón með langtímarannsókn Breta, Whitehall II, þar sem kannað er hvernig félagsleg staða hefur áhrif á heilsu.

Á fundinum lagði Marmot áherslu á hve stjórnvöld geta haft mikil áhrif á lýðheilsu með stefnu sinni og aðgerðum. Hann sagði mikilvægt að átta sig á því að læknavísindi og læknisþjónusta hefðu engin grundvallaráhrif á lýðheilsu þjóða, grundvallaratriðið væri hvernig stjórnvöld stuðluðu að lýðheilsu með því að styðja við þá þætti sem sýnt hefur verið fram á að skipti mestu máli um velferð fólks. Hann sagði sérstaklega mikilvægt hvernig búið væri að börnum frá fyrstu tíð, að þau liðu ekki skort, fengju gott atlæti jafnt andlega sem líkamlega og tækifæri til að njóta menntunar og annarra mikilvægra gæða samfélagsins.

Marmot stóð fyrir gerð skýrslu um ójöfnuð og heilsu fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina sem hefur haft mjög mikil áhrif á stefnu stjórnvalda í mörgum löndum. Rannsóknir hans hafa sýnt fram á að félagslegur ójöfnuður hefur svo mikil áhrif á heilsu að verulegur munur getur verið á lífslíkum fólks þótt það búi í sama samfélagi. Segir hann að í Bretlandi muni að meðaltali sjö árum á lífslíkum þeirra fimm prósenta Breta sem verst eru settir og þeirra sem eru best settir.

Marmot telur sveitarfélög geta haft mikil áhrif á nærumhverfi íbúa sinna og þar með haft áhrif á lýðheilsuna. Hann skiptir þeim atriðum sem mestu ráða í sex þætti, þ.e. þroskamöguleika barna í uppvextinum, menntun, starf og starfsaðstæður, að hafa nóg fé til framfærslu, góð búseturskilyrði og góðar aðstæður á vinnustað. Loks skipti miklu að fólk stundi holla lífshætti.

Breska ríkisstjórnin vill að barátta gegn ójöfnuði sé meginefni í heilbrigðisstefnu hennar, stór hluti sveitarfélaga í Bretlandi ætla að fylgja ráðleggingum Marmots og fjöldi sveitarfélaga í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndunum sömuleiðis.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta