Ráðherra heimsækir stofnanir
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti í dag þrjár af stofnunum ráðuneytisins; Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun og Úrvinnslusjóð. Í heimsóknunum kynnti ráðherra sér starfsemi stofnananna og ræddi við stjórnendur og starfsfólk þeirra.
Dagurinn hófst á heimsókn í Veðurstofu Íslands þar sem ráðherra og ráðuneytisstjóri funduðu með forstjóra og lykilstjórnendum. Á fundinum var farið yfir helstu þætti starfsemi Veðurstofunnar og framtíðarverkefni. Að því loknu skoðaði ráðherra spádeild stofnunarinnar og snjóflóðavakt og ýmsan tækjabúnað s.s. vatnamælingabíl og jarðskjálftamæla.
Frá Veðurstofu Íslands lá leiðin í Umhverfisstofnun þar sem forstjóri og sviðsstjórar kynntu áherslur stofnunarinnar, stöðu hennar, stefnu og markmið fyrir næstu ár. Þá ávarpaði ráðherra starfsfólk stofnunarinnar og þáði kaffiveitingar.
Síðasta heimsókn dagsins var í Úrvinnslusjóð þar sem fundað var með starfsfólki og formanni stjórnar sjóðsins. Rætt var um starfsemi sjóðsins, uppbyggingu úrvinnslusjóðskerfisins og framtíðarhorfur.
Voru heimsóknirnar hinar gagnlegustu fyrir ráðherra að glöggva sig á starfsemi þessara stofnana en á næstu dögum og vikum mun ráðherra sækja fleiri stofnanir ráðuneytsins heim.