Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra tekur á móti Ban Ki-moon

Gunnar Bragi Sveinsson & Ban Ki-moon.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í morgun fund með Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, en opinber heimsókn þess síðarnefnda til Íslands hófst í dag. Á fundi sínum ræddu þeir m.a. sjálfbæra nýtingu auðlinda og áhrif loftslagsbreytinga, en aðalframkvæmdastjórinn mun kynna sér þau mál sérstaklega í heimsókn sinni.

Ræddar voru áherslur Íslands á þróunarsamvinnu, mannréttindi og jafnréttismál. Utanríkisráðherra fagnaði sérstaklega alþjóðlegu átaki um aukna nýtingu sjálfbærra orkugjafa sem Sameinuðu þjóðirnar hafa ýtt úr vör að frumkvæði Ban Ki-moon, en forseti Íslands á sæti í ráðgjafastjórn átaksins. Þá áréttaði utanríkisráðherra mikilvægi ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi og lagð áherslu á að fleiri konur gegni hlutverki sérstakra fulltrúa Sameinuðu þjóðanna á átakasvæðum.

Utanríkisráðherra og Ban Ki-moon ræddu hugmyndir um hvað skuli taka við af þúsaldarmarkmiðum SÞ eftir 2015 og mótun nýrra markmiða um sjálfbæra þróun.

Utanríkisráðherra kynnti aðalframkvæmdastjóranum helstu áhersluefnin í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslendinga til 2016; sjálfbæra nýtingu auðlinda, heilsu og menntun, störf í þágu friðar, jafnrétti kynjanna og umhverfismál.

Aðalframkvæmdastjórinn fagnaði þeirri áætlun Íslendinga að markmið SÞ um að 0,7% af vergum þjóðartekjum renni til þróunarmála verði náð árið 2019. Hann bar lof á það starf sem unnið er hér á landi á vegum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á sviði jarðhitanýtingar, sjávarútvegsmála, landgræðslu og jafnréttismála.

Þá ræddu þeir ástandið í Sýrlandi og friðarumleitanir í Mið-Austurlöndum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta