Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Viljayfirlýsing um gerð samnings við sérgreinalækna undirrituð

Skurðaðgerð undirbúin
Skurðaðgerð undirbúin

Heilbrigðisráðherra, fulltrúar sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og Sjúkratryggingar Íslands hafa undirritað viljayfirlýsingu um gerð samnings sem taki gildi 1. janúar 2014. Samningslaust hefur verið við sérgreinalækna í rúm tvö ár.

Aðilar að viljayfirlýsingunni eru heilbrigðisráðherra, Sjúkratryggingar Íslands (SÍ), Læknafélag Reykjavíkur og Samninganefnd Læknafélags Reykjavíkur.

Samningur sérgreinalækna og SÍ rann út í lok mars 2011. Þá var sett reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu þeirra og einhliða gjaldskrá ákveðin af SÍ. Enn hefur ekki tekist samningur um þjónustuna og hafa sérgreinalæknar á tímabilinu hækkað gjaldskrár sínar sem nemur að jafnaði um 18–20% umfram viðmiðunargjaldskrá SÍ. Sú hækkun lendir öll á sjúklingunum sem þýðir að kostnaðarhlutdeild sjúkratryggðra fyrir þjónustu sérgreinalækna hefur á tímabilinu hækkað úr 31% í 42%.

Samningur tryggi jafnan aðgang sjúkratryggðra að þjónustu

Heilbrigðisráðherra hefur nú framlengt reglugerð um endurgreiðslu lækniskostnaðar til 31. desember 2013 og er það tímabundin aðgerð meðan unnið verður að gerð nýs samnings. Í viljayfirlýsingu ráðherra og sjálfstætt starfandi sérgreinalækna segir að í framhaldi af þeirri ákvörðun lýsi sérgreinalæknar „vilja til að ljúka gerð nýs samnings sem tryggi jafnan aðgang sjúkratryggðra að þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna. Samningurinn verði til 3 - 5 ára og taki gildi 1. janúar 2014.“

Í yfirlýsingunni segir að samningsleysið undanfarin ár hafi leitt til þess að kostnaður sjúkratryggðra sé kominn langt umfram sett viðmið og ógni því markmiði sjúkratryggingalaganna að tryggja jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag: „Um leið hefur kostnaðurinn grafið undan núverandi greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga. Niðurstaðan er aukið ógagnsæi og mismunun.“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigiðsráðherra fagnar þeim vilja sérgreinalækna til samningsgerðar sem innsiglaður er með viljayfirlýsingunni og segist bjartsýnn á að samningur náist: „Eins og fram kemur í viljayfirlýsingunni erum við sammála um ákveðin atriði sem tekið verði á í nýjum samningi með aukna hagræðingu að leiðarljósi til hagsbóta fyrir sjúkratryggða, hið opinbera og þá sem veita þjónustuna.“  

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að nýr samningur eigi að fela í sér samræmda gjaldskrá sem miðist við umfang og heildarkostnað þjónustunnar í júní 2013. Einstakir þættir þjónustunnar verða kostnaðargreindir og miðað við að nýjar reglur um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga tryggi að þeir njóti aðstoðarinnar sem mest þurfi á þjónustunni að halda. Eins er tekið fram að það sé eftirsóknarvert að meðalkostnaður sjúkratryggðra vegna þjónustugjalda lækki úr 42% líkt og nú er niður í 28% eins og var árið 2008.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta