Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2013 Utanríkisráðuneytið

Norrænt loftrýmiseftirlit á Íslandi árið 2014

Í byrjun næsta árs munu Svíar og Finnar sinna loftrýmiseftirliti á Íslandi samhliða reglubundinni loftrýmisgæslu Norðmanna. Um er að ræða merkileg skref í sögu norrænnar varnarsamvinnu og Atlantshafsbandalagsins.

Loftrýmiseftirlitið mun eiga sér stað dagana 3.-21. febrúar nk. og hafa þjóðþing Finna og Svía samþykkt þátttökuna, sem og fastaráð Atlantshafsbandalagsins.  Þátttaka Svía og Finna í loftrýmiseftirliti á Íslandi á sér bakgrunn í skýrslu Thorvalds Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Noregs, um norrænt samstarf í utanríkis- og varnarmálum sem hann afhenti utanríkisráðherrum Norðurlandanna árið 2009.

Tvær undirbúningsráðstefnur hafa átt sér stað á þessu ári og mun lokaundirbúningur fara fram á Íslandi í lok október nk. Öll ríkin þrjú munu leggja til orrustuþotur en einnig er fyrirséð að ratsjárvélar frá Atlantshafsbandalaginu og þyrlur og eldsneytisáfyllingarvél frá Finnlandi og Svíþjóð verði liður í eftirlitinu. Alls munu þátttakendur frá löndunum þremur verða á bilinu 200-250 manns.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta