Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs staðfestar

Vatnajökulsþjóðgarður
Úr Vatnajökulsþjóðgarði

 

 

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra hefur staðfest breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs, að tillögu stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Stjórn þjóðgarðsins hefur að undanförnu unnið að breytingum á stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins sem var staðfest árið 2011 og sendi stjórnin umhverfis- og auðlindaráðherra breytingartillögurnar til staðfestingar í júní 2013, á grundvelli laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð.

Lög um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 einskorða vald ráðherra til að breyta tillögu stjórnar þjóðgarðsins við þau tilvik þar sem talið er að hún brjóti í bága við lög eða reglugerð um þjóðgarðinn eða gegn verndarmarkmiðum þjóðgarðsins. Eftir yfirferð breytingartillagnanna er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrðum laga og reglna hafi verið fylgt við gerð breytinga á áætluninni og ekki séu forsendur til að synja áætluninni staðfestingar. 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið telur mikilvægt að reynt sé að ná sem víðtækastri sátt í samfélaginu varðandi framkvæmd meginmarkmiða Vatnajökulsþjóðgarðs um náttúruvernd, útivist og byggðaþróun. Það er hins vegar umfangsmikið verkefni enda tekur þjóðgarðurinn til um 14% landsins  og er stærsti þjóðgarður í Vestur Evrópu. Við stefnumörkun, samræmingu sjónarmiða og ákvarðanatöku um vernd og nýtingu hverskonar gæða innan þjóðgarðsins er stjórnunar- og verndaráætlunin helsta stjórntækið. Ráðuneytið telur að þær breytingar sem hér eru gerðar á áætluninni séu mikilvægar í þeirri viðleitni við að skapa víðtæka sátt um þessa sameign þjóðarinnar, og telur að með því hafi stjórn þjóðgarðsins stigið mikilvægt skref í þá átt. 

Líkt og við afgreiðslu á stjórnunar og verndaráætlun þjóðgarðsins 2011 vill ráðherra beina tilmælum til stjórnar þjóðgarðsins um frekari skoðun á ákveðnum atriðum, samtímis því að staðfesta áætlunina. Í þessu tilviki eru það málefni útivistar og náttúruverndar í Vonarskarði, þar sem fram hafa komið tillögur að breytingum sem kalla á umræðu og ítarlegri yfirferð. Ráðuneytið beinir því þeim tilmælum til stjórnar þjóðgarðsins að skoða þetta sérstaklega og hafa samstarf við helstu hagsmuna- og umsagnaraðila um málefni Vonarskarðs í því skyni að tryggja að sem best sé haldið á hagsmunum náttúruverndar og útivistar. Þannig vill ráðuneytið halda áfram þeirri viðleitni að skapa sem mesta sátt um þjóðgarðinn.

Bréf stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs til umsagnaraðila

Bréf umhverfis- og auðlindaráðuneytis til stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta