Vegna umræðu um afslætti apóteka af lyfjum og hagsmuni sjúklinga
Sjúklingar njóta þeirra afslátta sem lyfsalar veita þeim við kaup á lyfjum. Í nýlegri yfirlýsingu frá Neytendasamtökunum segir að Sjúkratryggingar Íslands geri kröfu um að stærstur hluti af veittum afslætti renni til þeirra í stað kaupanda lyfjanna. Þetta er rangt eins og nánar er skýrt hér á eftir.
Þann 4. maí síðastliðinn tók gildi nýtt kerfi um greiðsluþátttöku fólks vegna kaupa á lyfjum. Meginmarkmiðið með nýju kerfi er að auka jafnræði milli einstaklinga óháð sjúkdómum og draga úr lyfjakostnaði þeirra sem þurfa að jafnaði að nota mikið af lyfjum eða nota mjög dýr lyf.
Með nýja kerfinu var sett þak á hámarksútgjöld fólks fyrir lyfjakaup á tólf mánaða tímabili en áður var það svo að ekkert hámark var á kostnaði einstaklinga sem þurftu á mörgum og dýrum lyfjum að halda. Í stað þess að sjúkratryggingar greiði nú niður öll lyf sem á annað borð eru með greiðsluþátttöku, hvort sem fólk notar mikið eða lítið af lyfjum, er greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nú bundin við fjárhæðir. Á hverju tólf mánaða tímabili þarf fólk almennt að greiða að fullu fyrir lyf sem það kaupir upp að 24.075 kr. (fjárhæðin er lægri, þ.e. 16.050 kr. hjá elli- og örorkulífeyrisþegum og börnum og ungmennum að 22 ára aldri). Kaupi fólk lyf fyrir hærri fjárhæðir en þetta greiðir það einungis 15% af verði þeirra lyfja sem eru með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga upp að tiltekinni fjárhæð en þá lækkar hlutur sjúklings niður í 7,5%. Fari kostnaður fólks upp fyrir greiðsluþakið á það rétt á lyfjaskírteini og þar með greiða sjúkratryggingar lyfin að fullu (sjá nánari upplýsingar um greiðslur á vef Sjúkratrygginga Íslands).
Hagsmunir þeirra sem þurfa á lyfjum að halda í fyrirrúmi
Það er mjög mikilvægt að lyfsalar veiti Sjúkratryggingum Íslands réttar upplýsingar um kostnað einstaklinga vegna lyfjakaupa. Þannig er tryggt að hver og einn greiði hvorki meira né minna en honum ber og að hann njóti niðurgreiðslu sjúkratrygginga í samræmi við reglur greiðsluþátttökukerfisins. Eins og áður sagði greiðir fólk almennt lyf sín að fullu þar til kostnaðurinn nær 24.075 kr. innan tólf mánaða tímabils, en þessi fjárhæð er 16.050 kr. hjá lífeyrisþegum, börnum og ungmennum.
Fjöldi fólks notar tiltölulega lítið af lyfjum og mun ekki ná framangreindum fjárhæðum á tólf mánaða tímabili. Hjá öllum sem svo háttar nýtast afslættirnir sem lyfsalar veita þeim að fullu. Þeir sem þurfa meira á lyfjum að halda njóta góðs af afsláttum sem lyfsalar veita þeim þar sem upphafskostnaðurinn leggst hægar á viðkomandi en ella. Afslættir lyfsala ættu jafnframt að draga úr þörf fólks fyrir greiðsludreifingu.
Nýja greiðsluþátttökukerfinu er ætlað að verja sjúklinga gegn háum lyfjakostnaði. Reglurnar um upphafskostnaðinn eru skýrar. Um leið og einstaklingur hefur greitt samtals 24.075 kr. (eða 16.059 hjá lífeyrisþegum og börnum og ungmennum yngri en 22. ára) fyrir lyf sín tekur við 85% greiðsluþátttaka sjúkratrygginga og hlutur notandans lækkar úr 100% niður í 15%. Það er alveg ljóst að lyfsölum ber að veita sjúkratryggingum upplýsingar um það verð sem notandi greiðir fyrir lyfið sitt en ekki verð lyfsins áður en afsláttur hefur verið reiknaður. Geri lyfsalar það ekki brjóta þeir gegn lögum, vinna gegn markmiðum kerfisins og draga úr jafnræði meðal sjúklinga.
Lyfslölum er í sjálfsvald sett hve mikinn afslátt þeir veita og sá afsláttur nýtist sjúklingum. Hins vegar er nauðsynlegt að þær fjárhæðir sem sjúklingarnir sannanlega greiða skili sér í réttindabókhald sjúkratrygðra því af þeim kostnaði ræðst réttur sjúklinga til niðurgreiðslu lyfjakostnaðar frá sjúkratryggingum eins og að framan er lýst.