Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2013 Innviðaráðuneytið

Tillögur mótaðar um framtíðarstefnu í húsnæðismálum

Húsin í bænum
Húsin í bænum

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa verkefnisstjórn og samvinnuhóp honum til ráðgjafar til að móta tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum.  Verkefnisstjórnin mun kanna hvaða fyrirkomulag við fjármögnun almennra húsnæðislána er hagkvæmast og gera tillögur um hvernig megi hrinda því í framkvæmd. Jafnframt verður skoðað hvernig tryggja megi virkan leigumarkað hér á landi og einnig skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda. Í því sambandi verður skoðað hvernig stjórnvöld geta sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í því að veita þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.

Ákvörðun um skipun verkefnisstjórnarinnar er í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila sem samþykkt var á Alþingi í sumar. Verkefnisstjórnin á að skila félags- og húsnæðismálaráðherra tillögum að framtíðarstefnu í húsnæðismálum í byrjun næsta árs. Verkefnisstjórnin verður skipuð sjö fulltrúum; einum fulltrúa frá hvorum stjórnarflokkanna, formanni velferðarnefndar Alþingis og þá munu velferðarráðuneyti, forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti tilnefna einn fulltrúa hvert. Þá skipar ráðherra formann án tilnefningar.

Verkefnisstjórninni er ætlað að safna gögnum um húsnæðismál, greina þau í samvinnu við óháða sérfræðinga, framkvæma stöðumat og móta á þeim grunni stefnu um framtíðarskipan húsnæðismála. Miðað er við að verkefnisstjórnin byggi tillögur sínar meðal annars á greiningu sem unnin verður af innlendum og erlendum ráðgjöfum. Jafnframt verði byggt á vinnu starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs, auk annarrar vinnu sem þegar hefur átt sér stað og getur nýst við stefnumótunina.

Áhersla á víðtæka sátt um framtíðarskipulag húsnæðismála

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherraEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir grundvallaratriði að skapa víðtæka sátt um framtíðarskipulag húsnæðismála í landinu og því leggi hún áherslu á að sem flestir komi að stefnumótuninni: „Fátt er fólki mikilvægara en að eiga öruggt heimili. Það verður því að skapa öllum raunveruleg tækifæri til þess óháð efnahag og því er mikilvægt að valkostir í húsnæðismálum séu fjölbreyttir og geti mætt ólíkum þörfum og fjárhagslegum burðum fólks.“

Ráðherra hefur ákveðið að skipa samvinnuhóp sem verður verkefnisstjórninni til ráðgjafar um mótun framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Samvinnuhópurinn verður skipaður fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Búmönnum, Búseta, Búseta Norðurlandi, Byggingafélagi námsmanna, Félagsstofnun stúdenta, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íbúðalánasjóði, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökum lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, talsmanni neytenda, umboðsmanni skuldara, þingflokki Bjartrar framtíðar, þingflokki Framsóknarflokksins, þingflokki Pírata, þingflokki Samfylkingarinnar, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Öryrkjabandalagi Íslands. Formaður verkefnisstjórnar verður jafnframt formaður samvinnuhópsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta