Afhending trúnaðarbréfs gagnvart CTBTO
Auðunn Atlason, sendiherra, afhenti í dag, 2. ágúst, Dr. Lassina Zerbo, framkvæmdastjóra Undirbúningsstofnunar samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (Comprehensive Test Ban Treaty Organisation, CTBTO), trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands. Alls hafa 183 ríki undirritað samninginn og þar af hafa 158 ríki fullgilt hann. Ísland undirritaði samninginn árið 1996 og fullgilti hann árið 2000.
Samið var um CTBT á árunum 1994 til 1996. Markmið samningsins er að koma á algeru banni við kjarnorkusprenginum hvort sem er á jörðu niðri eða neðanjarðar, í lofti eða neðansjávar. Slíkt bann myndi stemma enn frekar stigu við útbreiðslu kjarnorkuvopna og koma í veg fyrir þann skaða sem stafar af kjarnorkusprengingum vegna áhrifa geislunar. Um samninginn og starfsemi CTBTO má lesa hér.
Fastanefnd Íslands í Vín fer einnig með fyrirsvar Íslands innan Skrifstofu SÞ í borginni (UNOV), innan Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA). Sendiskrifstofan er sömuleiðis tvíhliða sendiráð gagnvart Austurríki, og hefur fjögur ESB-ríki í umdæmi sínu (Ungverjaland, Tékkland, Slóvakía og Slóvenía) og tvö ríki á Balkanskaga (Makedónía og Bosnía-Hersegóvína).