Kallað eftir skoðunum á matvælaframleiðslu og –neyslu
Evrópusambandið (ESB) hefur sett af stað ráðgjafarferli á netinu þar sem óskað er eftir áliti almennings á matvælaframleiðslu og –neyslu í álfunni. Markmiðið er að finna leiðir til að draga úr matarsóun og tryggja að auðlindir séu nýttar með skilvirkum og sjálfbærum hætti þegar kemur að matvælaframleiðslu.
Árlega er um 89 milljónum tonna af mat sóað í Evrópu. Bent hefur verið á að það sé bæði siðferðislega og hagfræðilega óviðunandi, ekki síst í ljósi þeirrar miklu auðlindanotkunar sem framleiðsla þessara matvæla hefur haft í för með sér. Þannig sé augljóslega einhver brotalöm í matarkerfi álfunnar.
Matur er ein af meginundirstöðum lífs mannsins og er mikilvægur þátt í menningu okkar og hagkerfi. Stöðugt fleiri sérfræðingar draga hins vegar í efa að nútíma matvælaframleiðsla og –neysla sé sjálfbær þegar til lengri tíma er litið. Hún hefur veruleg áhrif á umhverfið, m.a. vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar, mengunar sem hlýst af framleiðslunni s.s. fosfórnotkunar og áhrifa efna á borð við skordýraeitur og áburð.
Í ráðgjafarferlinu er almenningur, fyrirtæki, félagasamtök og opinberar stofnanir beðnar um að koma með hugmyndir að aðgerðum sem gætu dregið úr matarsóun og aukið skilvirkni í nýtingu auðlinda við matvælaframleiðslu. Hugmyndirnar verða svo nýttar við frekari vinnu ESB í þessum málaflokki.
Kallað er eftir skoðunum varðandi forgangsröðun aðgerða, hvernig mæla megi umhverfisáhrif matvælaframleiðslu, hvernig ýta megi undir sjálfbærari framleiðsluaðferðir og dreifingu matvæla og hvernig hindra megi matarsóun.
Ráðgjafarferlið verður opið til 1. október 2013 en stefnt er að því að síðar á árinu verði kynntar fyrstu hugmyndir ESB um það hvernig takast megi á við þessar áskoranir.
Framangreint ráðgjafarferli getur leitt til breytinga á löggjöf ESB sem hefur verið innleidd hér á landi á grundvelli EES-samningsins, m.a. varðandi úrgangsmál og matvælaframleiðslu og –neyslu.