Samkomulag kínversks sjúkrahúss og Mentis Cura fagnaðarefni
Undirritað var í dag samkomulag milli íslenska rannsóknarfyrirtækisins Mentis Cura og kínverska sjúkrahússins Wan Jia Yuan China Geriatric Hospital um innleiðingu sjúkrahússin á hugbúnaði sem fyrirækið hefur þróað til greiningar á Alzheimer og öðrum heilabilunarsjúkdómum. Samkomulagið er mikið fagnaðarefni segir heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði við undirritun samkomulagsins að í því felist mikil viðurkenning á því góða starfi sem Mentis Cura hefur unnið allt frá stofnun fyrirtækisins árið 2002. Samstarfið felur í sér að kínverski spítalinn mun innleiða greiningartækni MentisCura á Alzheimer og öðrum minnissjúkdómum. Einnig mun félagið verða leiðandi samstarfsaðili í tengslum við klínískar rannsóknir.
Ráðherra gerði að umtalsefni fjölgun fólks með heilabilunarsjúkdóma samfara hækkandi meðalaldri þjóða. Á Íslandi áætlar Hagstofan að árið 2030 verði Íslendingar eldri en 80 ára rúmlega 18.500 eða um 5% landsmanna. Gera má ráð fyrir að um það bil 25% þeirra verði með einhvern heilabilunarsjúkdóm: „Fjölgun fólks með þessa sjúkdóma er áhyggjuefni og því sérstaklega mikilvægt að í verkefninu felast miklir möguleikar á að efla rannsóknarstarf á þessu sviði. Örugg greiningartækni tryggir árangursríka meðferð fólks með heilabilunarsjúkdóm“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Fjöldi sérfræðinga víða að úr heiminum starfa á kínverska sjúkrahúsinu Wan Jia Yuan China Geriatric Hospital. Þar eru um 1.200 sjúkrarúm, þar af um 400 fyrir fólk með Alzheimer.