Vefsvæði Dags íslenskrar náttúru 2013 opnað
Undirbúningur vegna Dags íslenskrar náttúru, sem haldinn er hátíðlegur 16. september ár hvert, er hafinn. Sérstakt vefsvæði dagsins í ár hefur verið opnað á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Dagskráin er í mótun en meðal annars munu stofnanir umhverfisráðuneytisins efna til ýmiss konar viðburða í tilefni dagsins sem verða auglýstir þegar nær dregur. Umhverfisráðherra efnir til hátíðarsamkomu þar sem Fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti verða afhent. Þá eru sveitarfélög, skólar, einstaklingar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hvött til að efna til viðburða í tilefni dagsins, kynna afurðir sem unnar eru úr villtri, íslenskri náttúru og beina sjónum að þeim fjársjóðum sem í henni felast.
Upplýsingar um viðburði má senda til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á netfangið [email protected]. Verður þeirra þá getið á vefsvæði Dags íslenskrar náttúru á www.uar.is
Umhverfisráðuneytið hefur óskað eftir tilnefningum til Fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Tilnefningar með rökstuðningi sendist Umhverfisráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, eða á netfangið [email protected] fyrir 16. ágúst 2013.
Vefsvæði Dags íslenskrar náttúru 2013