Utanríkisráðherra fundar um norðurslóðamál
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Patrick Borbey frá Kanada, formanni embættismannanefndar Norðurskautsráðsins en Kanada fer með formennsku í ráðinu næstu tvö árin.
Á fundinum gerði utanríkisráðherra grein fyrir mikilvægi norðurslóða í utanríkisstefnu stjórnvalda og mikilvægi Norðurskautsráðsins fyrir alþjóðasamvinnu á norðurslóðum í ljósi örra umhverfis- og samfélagsbreytinga á svæðinu.
Patrick Borbey lýsti áherslum Kanada á að styrkja samstarf um efnahags- og samfélagsþróun á norðurslóðum. Meðal verkefna ráðsins næstu árin er stofnun samstarfsvettvangs um viðskipti á svæðinu, sem Ísland leiðir ásamt Kanada, Finnlandi og Rússlandi, þróun regluverks og forvarna vegna norðursiglinga og olíumengunar og aukið vísindasamstarf norðurskautsríkja.
Utanríkisráðherra lýsti sérstaklega yfir ánægju með að Grænland hefði ákveðið að hefja aftur þátttöku í störfum ráðsins og sagði að Ísland legði ríka áherslu á framlag og þátttöku Grænlands í öllu starfi Norðurskautsráðsins.
Borbey fundaði einnig með sérfræðingum utanríkisráðuneytisins í málefnum norðurslóða og fulltrúum frá nýstofnuðu Norðurslóða-viðskiptaráði.