Stjórnvöld harma mannfall í Egyptalandi og fordæma ofbeldisverk
Íslensk stjórnvöld harma mannfall það sem orðið hefur undanfarnar vikur í Egyptalandi og hvetja valdhafa til að sýna stillingu í aðgerðum gegn mótmælendum. Ísland fordæmir öll ofbeldisverk.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ritaði í dag Nabil Fahmy, utanríkisráðherra Egyptalands, bréf þar sem hann lýsir áhyggjum sínum vegna ástandsins í Egyptalandi. Gunnar Bragi segir í bréfi sínu að virða beri lýðræðisvilja borgara Egyptalands. Lýðræðisþróun hafi ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til, líkt og aðgerðir egypska hersins í júlí beri vott um. Utanríkisráðherra leggur áherslu á að nýir valdhafar standi við fyrirheit um að stefna hratt og örugglega að því að við völdum taki lögmæt lýðræðisstjórn.
Þá hvetur utanríkisráðherra stjórnvöld í Egyptalandi til að tryggja að allir lýðræðislegir flokkar fái aðkomu að hinu pólitíska ferli. Stuðla verði að sáttum og samlyndi í samfélaginu, ella sé hætta á frekari átökum sem aðeins muni skaða hagsmuni íbúa landsins og heimshlutans alls.