Afhending trúnaðarbréfs hjá ÖSE og IAEA
Auðunn Atlason, sendiherra, afhenti í dag Lamberto Zannier, framkvæmdastjóra Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá stofnuninni. Meginhlutverk ÖSE er að vinna að öryggi, friði og mannréttindum og er stofnunin stærsta svæðisbundna alþjóðastofnunin af sínu tagi með alls 57 aðildarríki frá Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Baráttan fyrir grundvallarmannréttindum er eitt meginverksvið ÖSE og hefur Ísland á undanförnum árum meðal annars tekið þátt í aðgerðum gegn mansali, og verið í hópi þeirra ríkja sem hafa beitt sér til að auka jafnrétti kynjanna og staðið vörð um tjáningarfrelsi, þ.m.t. frelsi fjölmiðla. ÖSE er einnig mikilvægur vettvangur fyrir samstarf, samráð og samninga sem lúta að afvopnun, friðsamlegri lausn deilumála, fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir átök og uppbyggingu trausts milli þátttökuríkja. Lesa má nánar um hlutverk og verkefni ÖSE hér en stofnunin rekur upphaf sitt til Helsinki-ferlisins á áttunda áratugnum þar sem andstæð ríki í kalda stríðinu hittust í fyrsta skipti með formlegum hætti til að ræða mannréttindi og afvopnun.
Í liðinni viku, mánudaginn 19. ágúst, afhenti Auðunn einnig Yukiya Amano, framkvæmdastjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands. Meginhlutverk IAEA er að tryggja friðsamlega og örugga notkun kjarnorku, og er þannig mikilvægur hlekkur í keðju samninga og stofnana til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna. IAEA lék einnig lykilhlutverk í viðbrögðum alþjóðasamfélagsins við kjarnorkuslysinu í Fukushima-kjarnorkuverinu í Japan árið 2011. Nánar má lesa um hlutverk og verkefni IAEA hér.
Fastanefnd Íslands í Vín fer einnig með fyrirsvar Íslands innan Skrifstofu SÞ í borginni (UNOV). Sendiskrifstofan er sömuleiðis tvíhliða sendiráð gagnvart Austurríki, og hefur fjögur ESB-ríki í umdæmi sínu (Ungverjaland, Tékkland, Slóvakía og Slóvenía) og tvö ríki á Balkanskaga (Makedónía og Bosnía-Hersegóvína).