Afhending trúnaðarbréfs hjá NATO
Anna Jóhannsdóttir, sendiherra, afhenti í dag Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATO), trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá stofnuninni. Ísland varð stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu 1949 sem í dag telur 28 aðildarríki. Meginmarkmið bandalagsins hefur ávallt verið að tryggja öryggi og frið í álfunni og pólitískt bandalag lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. Aðild og þátttaka í störfum NATO gegnir lykilhlutverki í öryggis- og varnarmálasamvinnu Íslands. Bandalagsríkin taka þátt í loftrýmisgæsluverkefni Atlantshafsbandalagsins á Íslandi og munu samstarfsríkin Svíþjóð og Finnland taka þátt í loftrýmiseftirliti á næsta ári ásamt Noregi.
Ísland hefur tekið þátt í fjölmörgum verkefnum og aðgerðum NATO, m.a. á Balkanskaga og í Afganistan með því að leggja til sérfræðinga til starfa við borgaraleg verkefni. Ísland hefur undanfarin ár tekið virkan þátt í stefnumótun innan bandalagsins sem snýr að heildstæðri nálgun í aðgerðum, auknu vægi afvopnunarmála og undirbúningi að lokum aðgerða Alþjóðlegu öryggis- og stuðningssveitarinnar í Afganistan og breyttra verkefna á þeim vettvangi.
Íslensk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á innleiðingu og framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi, nr. 1325 í starfi og aðgerðum Atlantshafsbandalagsins. Anna Jóhannsdóttir er fyrsta íslenska konan til að gegna stöðu fastafulltrúa hjá NATO.