Nefnd um samræmt niðurgreiðslukerfi fyrir alla heilbrigðisþjónustu
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað nefnd til að kanna hvort og hvernig megi fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag. Formaður hópsins er Pétur Blöndal.
Nefndin mun meðal annars styðjast við vinnu sem fram fór í nefnd sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði í nóvember árið 2007 og fól að; „gera tillögu að réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði“. Pétur Blöndal alþingismaður stýrði vinnu þessarar nefndar sem á sínum tíma stóð fyrir viðamikilli gagnasöfnun og greiningu á heilbrigðiskostnaði.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að nefndin sem nú hefur verið skipuð nýti eftir föngum í störfum sínum þá vinnu sem þegar hefur farið fram og hraði verkefninu eins og kostur er:
„Það er mjög mikilvægt að finna góða leið til að halda utan um útgjöld fólks fyrir alla nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, hver sem hún er og í hverju sem hún felst. Við verðum að finna leiðir sem tryggja að greiðsluþátttaka almannatrygginga nýtist þeim sem mest þurfa á þjónustu að halda og að reglur um kostnað sjúklinga séu samræmdar, sanngjarnar og gegnsæjar“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Samkvæmt skipunarbréfi er nefndinni sérstaklega ætlað að hafa samráð við Læknafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Félag eldri borgara, Öryrkjabandalag Íslands og Embætti landlæknis.