Námskeið til undirbúnings prófi til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður
Prófnefnd samkvæmt reglugerð nr. 1095/2007 um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður, sbr. lög nr. 77/1998 um lögmenn og lög nr. 93/2004, hefur ákveðið að halda námskeið haustið 2013. Prófraunin skiptist í tvo hluta, auk verklegrar prófraunar.
Kennslugreinar í fyrri hluta eru: Einkamálaréttarfar, sakamálaréttarfar, fullnusturéttarfar, samning lögfræðilegrar álitsgerðar og lögfræðileg skjalagerð. Kennslugreinar í síðari hluta eru: Réttindi og skyldur lögmanna, þar á meðal siðareglur lögmanna og þóknun fyrir lögmannsstörf, málflutningur og önnur störf lögmanna, svo sem samningsgerð og meðferð stjórnsýslumála. Í tengslum við námskeiðið fer fram kynning á rekstri lögmannsstofa og starfsemi Lögmannafélags Íslands og úrskurðarnefndar lögmanna. Auk kennslu í fyrri og síðari hluta er verklegur hluti, sem felst í aðstoð við flutning eins máls fyrir héraðsdómi. Kennsla fer fram í kennslusal Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, 108 Reykjavík.
Stefnt er að því að kennsla á fyrri hluta fari fram dagana 30. september til 11. október 2013. (Tímar frá 09:15-12:00 og frá 13:15 eða 14:15-17:00 eða 18:00). Jafnframt er stefnt að því að próf í fyrri hluta námskeiðsins verði haldin á tímabilinu 18. október til 1. nóvember 2013. Nánari upplýsingar um fjölda kennslustunda og fyrirkomulag kennslu verða kynntar síðar.
Stefnt er að því að kennsla í síðari hluta fari fram dagana 11. til 22. nóvember 2013. Þá er stefnt að því að próf í síðari hluta námskeiðsins verði haldin á tímabilinu 25. til 29. nóvember 2013.
Verklega prófraun skal þreyta eftir að fyrra hluta prófi er lokið og eigi síðar en einu ári eftir að lokið er síðari hluta prófi.
Gjald fyrir þátttöku á fyrri hluta prófraunar er kr. 250.000 og greiðist við skráningu. Gjald fyrir síðari hluta verður ákveðið síðar. Prófgjald er innifalið í námskeiðsgjaldi.
Skráning fer fram í gegnum rafrænt skráningarkerfi á heimasíðu Lögmannafélags Íslands á slóðinni www.lmfi.is. Við skráningu skal leggja fram afrit prófskírteinis eða vottorð háskóla til staðfestingar því að umsækjandi hafi lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi. Hægt er að senda þær upplýsingar með tölvupósti á netfangið: [email protected] eða senda á skrifstofu Lögmannafélagsins að Álftamýri 9, 108 Reykjavík.
Frestur til að skrá sig á námskeið er til og með 24. september 2013.
Í innanríkisráðuneytinu 4. september 2013