Hoppa yfir valmynd
10. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tillaga um móttöku flóttafólks samþykkt

Mynd frá flóttamannabúðum í Al Waleed árið 2008
Mynd frá flóttamannabúðum í Al Waleed árið 2008

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu félags- og húsnæðismálaráðherra og utanríkisráðherra um móttöku flóttafólks árin 2013 og 2014. Niðurstaðan er í samræmi við tillögu flóttamannanefndar og miðast við að tekið verði á móti konum í hættu frá Afganistan og hinsegin fólki frá Íran eða Afganistan, samtals 10–14 einstaklingum í tveimur hópum. 

Íslensk stjórnvöld hafa í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna tekið reglulega á móti flóttafólki frá árinu 1996. Flóttamannanefnd kynnti fyrir skömmu þær áherslur sem hún telur að leggja beri til grundvallar við móttöku flóttafólks og lagði tillögu sína fyrir félags- og húsnæðismálaráðherra og utanríkisráðherra. Þar er rakið hvernig íslensk stjórnvöld hafa undanfarið horft sérstaklega til kvenna í neyð við móttöku flóttafólks með áherslu á einstæðar mæður og jafnframt gerð grein fyrir því að hinsegin fólk sé jafnframt afar viðkvæmur hópur flóttafólks sem sæti ofsóknum og mannréttindabrotum í heimalöndum sínum. Er niðurstaða flóttamannanefndar sú að hér á landi séu góðir innviðir til að taka á móti einstæðum mæðrum og ástæða til að halda því áfram. Jafnframt telji nefndin réttindi hinsegin fólks vel varin hér á landi og íslensk stjórnvöld geti því lagt lóð sín á vogarskálarnar með því að taka á móti hinsegin flóttafólki.

Í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar í dag munu flóttamannanefnd og Útlendingastofnun vinna að framkvæmd málsins en Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna veitir aðstoð við val þeirra flóttamanna sem boðið verður til Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta