Skýrsla um erlenda ríkisborgara og innflytjendur
Erlendum ríkisborgurum hefur nú fjölgað milli ára í fyrsta sinn frá árinu 2008 og eru þeir um 6,7% mannfjöldans. Fjölmenningarsetur hefur gefið út tölfræðiskýrslu þar sem fram koma margvíslegar upplýsingar um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi árið 2012.
Eftirfarandi eru helstu niðurstöður skýrslunnar en hægt er að nálgast hana í heild á vef Fjölmenningarseturs.
Samantekt
- Í fyrsta sinn frá því í lok árs 2008 fjölgaði erlendum ríkisborgurum milli ára en í ársbyrjun 2013 voru 21.446 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi. Það gerir 6,7% mannfjöldans.
- Í byrjun árs voru allt að því jafnmargar konur og karlar með erlent ríkisfang búsett á landinu. Það er mikil breyting frá því í byrjun árs 2008 þegar yfir 5.000 fleiri erlendir karlar en konur voru búsettir hér.
- Í byrjun árs 2013 voru innflytjendur 25.926 talsins og 29.130 ef börn þeirra sem fædd eru á Íslandi eru talin með. Það þýðir að 9,1% landsmanna er annaðhvort innflytjandi eða af annarri kynslóð innflytjenda.
- Átta af hundraði allra barna á Íslandi, á aldursbilinu 0–4 ára, teljast til annarrar kynslóðar innflytjenda.
- Af einstaka ríkjum koma flestir erlendu ríkisborgararnir frá Póllandi, 9.363 einstaklingar í byrjun árs 2013, sem gerir 44% allra erlendra ríkisborgara á Íslandi. Pólverjar eru 3% landsmanna.
- Útgefnum dvalarleyfum hefur fækkað um 37% frá því 2008. Um helmingur dvalarleyfa er veittur á grundvelli fjölskyldusameiningar.
- Hæsta hlutfall innflytjenda af íbúum tiltekins svæðis er að finna á Vestfjörðum og Suðurnesjum. Þeir eru hins vegar langflestir til heimilis á höfuðborgarsvæðinu, eða tveir af hverjum þremur innflytjendum á Íslandi.
- Erlendir ríkisborgarar eru u.þ.b. 8% af vinnuaflinu í landinu. Þó er tæplega fimmti hver einstaklingur á atvinnuleysisskrá með erlent ríkisfang.
- Pólverjar voru 56% allra útlendinga á atvinnuleysisskrá í júní 2013 en atvinnuleysi meðal Pólverja er í kringum 15% samanborið við 4% atvinnuleysi meðal Íslendinga.
- Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar Fjölmenningarseturs og Mannréttindaskrifstofu Íslands benda til þess að mikið atvinnuleysi innflytjenda á Íslandi er ekki bundið við ríkisfangið eitt og sér, heldur hefur uppruni einstaklingsins áhrif. Árið 2010 mældist mesta atvinnuleysið hjá Íslendingum af erlendum uppruna, meira atvinnuleysi var innan þess hóps en meðal erlendu ríkisborgaranna.
- Gróflega má áætla að erlendir ríkisborgarar skili töluvert meira í ríkiskassann en þeir fái úr honum miðað við tölur frá Ríkisskattstjóra en erlendir ríkisborgarar með skattalega heimilisfesti á Íslandi greiddu tæplega 10 milljarða króna í skatta á síðasta ári.
- Frá aldamótum hefur fjöldi leikskólabarna með erlent ríkisfang sjöfaldast. Ellefu af hundraði leikskólabarna eru með erlent móðurmál.
- Fjöldi barna með erlent móðurmál í grunnskólum landsins hefur sjöfaldast frá árinu 2007. Í dag eru þau 6% allra grunnskólabarna, 2.663 talsins.
- Um 80% barna með innflytjendabakgrunn hófu nám í framhaldsskóla árið 2010 samanborið við 96% barna með engan erlendan bakgrunn. Hlutfallslega klára mun færri innflytjendur framhaldsskólanám en íslenskir jafnaldrar þeirra.
- Fjöldi einstaklinga með erlent ríkisfang sem fá greidd námslán hefur aukist ár frá ári, eða um 1.167% frá því 2002.
- Þriðjungur þeirra kvenna sem leituðu í Kvennaathvarfið á síðasta ári var erlendur ríkisborgari.
- Rannsókn Fjölmenningarseturs og Mannréttindaskrifstofu Íslands sýnir að börn af erlendum uppruna eru mun ólíklegri en börn af íslenskum uppruna til að vera í sameiginlegri forsjá og að uppruni hefur mikil áhrif á það hvort foreldrið fari með forsjá barnsins.
- Það fjármagn sem sett er í málefni innflytjenda í fjárlögum hefur minnkað umtalsvert síðan 2008. Með mikilli einföldun mætti setja það þannig upp að árið 2008 hafi tæplega 21.000 krónum verið varið í hvern erlendan ríkisborgara á landinu, samanborið við 9.000 krónur árið 2013 miðað við núverandi verðlag.