Sigurður Ingi á morgunverðarfundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins (AMIS)
Það var fullur salur á morgunverðarfundi AMIS í morgun. Yfirskrift fundarins var: Hvað viltu borða, viðskiptin og hollustan. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flutti erindi við upphaf fundar og lýsti í stuttu máli stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu. Kom fram í máli hans að stjórnvöld telja mikil tækifæri vera í matvælaframleiðslu á Íslandi og líta á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Og skipaður verði starfshópur til að móta tillögur um hvernig auka megi framleiðsluna. Ríkisstjórnin muni að sjálfsögðu ekki hafa frumkvæði að því að framleiða eitt né neitt. Slíkt væri á hendi markaðarins. En ríkisstjórnin myndi ekki þvælast fyrir þeim sem vildu reyna fyrir sér í framleiðslu matvæla.
Þá varaði ráðherra við því að menn ætluðu sér um of; lítil skref í rétta átt væru farsælli en stór í allar áttir. Metnaður Íslendinga ætti að standa til þess að tryggja vöruframboð til þeirra sem þeir skiptu við. Þannig myndu menn ávinna sér traust og virðingu til langframa.
Baldvin Jónsson, sem um langt skeið hefur unnið ötullega að því að kynna íslensk matvæli í Bandaríkjunum, veitti við upphaf fundar erindrekum Whole Foods svo kallaða „Lambassador“ viðurkenningu. Ekki að ástæðulausu því þeir voru nýkomnir úr göngum og réttum á Suðurlandinu, innblásnir af íslenskri náttúru og réttarstemmingu, í bókstaflegri merkingu. En eins og glöggir lesendur sjá, er „Lambassador“ sett saman úr „lamb“ og „ambassador“!
Aðrir sem héldu erindi voru Julia Obic framkvæmdastjóri Whole Foods í Bandaríkjunum, John Blair Gordon frá Natway hélt erindi um viðskipti milli Bandaríkjanna og Íslands og Arndís Thorarensen frá Lifandi markaði.