Hoppa yfir valmynd
18. september 2013 Utanríkisráðuneytið

Afhenti forseta Austurríkis trúnaðarbréf

Hinn 17. september sl. afhenti Auðunn Atlason Dr.  Heinz Fischer, forseta Austurríkis, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Austurríki.  Að  lokinni afhendingunni voru rædd tvíhliða samskipti Íslands og Austurríkis, Evrópumál og alþjóðamál. Á fundinum kom fram að samskipti Íslands og Austurríkis eru vinsamleg, ríkin eru gamlir samherjar úr EFTA og starfa nú saman innan vébanda EES-samningsins. Viðskipta- og einkum menningarsamskipti byggja á traustum grunni en margir íslenskir listamenn hafa hlotið menntun sína í Austurríki. Á vettvangi alþjóðamála eiga Ísland og Austurríki samleið en virðing fyrir mannréttindum og áhersla á friðsamlega lausn deilumála eru grunnstef í utanríkisstefnu beggja ríkja.  Fundinn sátu einnig Dr. Michael Linhart, verðandi ráðuneytisstjóri í austurríska utanríkisráðuneytinu, og Ingibjörg Davíðsdóttir, sendifulltrúi.

Sendiráð Íslands í Vín fer einnig með fyrirsvar gagnvart nágrannaríkjum í Mið-Evrópu og á Balkanskaga en Austurríki á langa samskiptasögu við þessi ríki. Austurríki gegnir mikilvægu hlutverki á alþjóðavettvangi en höfuðstöðvar margra alþjóðastofnana eru staðsettar í Vín, s.s. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðakjarnorkumálastofnunin og undirbúningsnefnd samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta