Hoppa yfir valmynd
18. september 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hátíðarhöld á Degi íslenskrar náttúru

Gestir á hátíðarathöfn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kom víða við á Degi íslenskrar náttúru, sem haldinn var hátíðlegur á mánudag, 16. september. Þetta er í þriðja sinn sem deginum er fagnað og var efnt til ýmiskonar viðburða um land allt af því tilefni.

Að loknu viðtali í Morgunútvarpi Rásar tvö heimsótti ráðherra framleiðslufyrirtækið Íslenska hollustu, þar sem eigendurnir, Eyjólfur Friðgeirsson og Bergþóra Einarsdóttir tóku á móti honum ásamt starfsfólki sínu. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu ýmissa afurða úr villtri íslenskri náttúru. Meðal annars má nefna þarakrydd, þarasósur, hollustusnakk úr hafinu, jurtate, sultur og berjasaft, rjómaosta, bætiefni og húðvörur en uppistaðan í framleiðslunni eru þarar, söl, fjallagrös og ber.

Næst lá leiðin í Menntaskólann í Kópavogi þar sem umhverfis- og auðlindaráðherra setti umhverfisviku skólans og kynnti sér aðstæður og kennslu á matvælasviði skólans í fylgd skólastjórnenda. Dagskrá umhverfisvikunnar er fjölbreytt þar sem nemendum er boðið upp á ýmiskonar atburði í tengslum við umhverfis- og náttúruvernd. Má þar nefna kynningar á þjóðgörðum, sýningu á heimildarmynd um plastpokanotkun, umræður um matarsóun og kynningu á Bláa hernum sem m.a. hefur staðið fyrir miklum hreinsunarátökum úti í náttúru landsins.

Ráðherra heimsótti einnig starfsmenn Veiðimálastofnunar við bakka Úlfarsár í Reykjavík þar sem hann fræddist um uppeldisaðstæður laxfiska í ám á Íslandi.

Hátíðardagskrá umhverfis- og auðlindaráðherra fór svo fram í Elliðavatnsbænum í Heiðmörk en samkoman hófst kl. 13:30.  Fór ráðherra þar með ávarp og fluttar voru hugleiðingar Hjalta Þórs Vignissonar, bæjarstjóra á Höfn í Hornafirði, um samspil náttúru og manna. Að því loknu afhenti ráðherra Páli Steingrímssyni Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir áralanga heimildamyndagerð um náttúru Íslands og Vigdísi Finnbogadóttur Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir mikilsvert framlag hennar til náttúruverndar á Íslandi.


Veðurguðir minntu á sig

Víða um land var efnt til viðburða í tilefni dagsins og héldu flestir sínu striki þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi minnt duglega á sig.  Efnt var til ýmiskonar gönguferða um náttúruperlur og falleg svæði um allt land og ýmis fyrirbæri náttúrunnar voru skoðuð undir handleiðslu sérfræðinga. Boðið var upp á fyrirlestra um íslenska náttúru, stofnanir, náttúrusýningar og gestastofur voru með opin hús, boðið var upp á náttúrugripagreiningu og nemendur og kennarar um land allt gerðu íslenskri náttúru hátt undir höfði í tilefni dagsins. Afmælisbarn dagsins, Ómar Ragnarsson, frumsýndi þrjár kvikmyndir, m.a. heimildamyndina Akstur í óbyggðum og skógræktarfólk notaði tækifærið til að planta trjám. Þá fengu tveir skólar, Háskólinn á Akureyri og leikskólinn Völlur í Reykjanesbæ, afhendan Grænfánann þennan dag. Fjöldi annarra viðburða voru í boði og má sjá dagskrána í heild á slóðinni http://www.umhverfisraduneyti.is/dagur-islenskrar-natturu-2013/dagskra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta