Hoppa yfir valmynd
18. september 2013 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra fundar með utanríkisráðherra Kanada

Gunnar Bragi með utanríkis- og aðstoðarutanríkisráðherra Kanada

Í dag lauk tveggja daga heimsókn Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Ottawa í Kanada þar sem hann fundaði með kanadískum ráðamönnum og fulltrúum úr viðskiptalífi landsins. Heimsóknin er liður í áherslum íslenskra stjórnvalda á að efla tengslin vestur um haf.

Utanríkisráðherra fundaði með John Baird, utanríkisráðherra Kanada, og fóru ráðherrarnir yfir samskipti ríkjanna og samstarf á alþjóðavettvangi s.s. innan Atlantshafsbandalagsins og Norðurskautsráðsins en Kanada fer með formennsku í ráðinu. Ráðherrarnir ræddu mikilvægi ábyrgrar auðlindanýtingar á norðurslóðum og nauðsyn þess að Kanada og Ísland vinni ásamt öðrum norðurskautsríkjum að sjálfbærri þróun norðurskautssvæðisins. Einhugur var um að styrkja frekara samstarf Íslands og Kanada í viðskiptum og norðurslóðamálum og þáði utanríkisráðherrann heimboð til Íslands.

Á fundi með Simon Kennedy aðstoðarviðskiptaráðherra lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að hefja viðræður um uppfærslu á gildandi fríverslunarsamningi EFTA ríkjanna og Kanada. Ráðherrarnir ræddu mikilvægi aukinna viðskipta milli landanna og fögnuðu framkvæmd loftferðarsamnings ríkjanna og fjölgun áfangastaða Icelandair í Kanada á grunni hans. Jafnframt var farið yfir gang fríverslunarviðræðna Kanada og ESB.

Utanríkisráðherra fundaði með Richard B. Fadden aðstoðarvarnarmálaráðherra þar sem þeir fóru yfir þróun öryggismála á norðurslóðum, þátttöku Kanada í loftrýmisgæsluverkefnum á Ísland, grannríkjasamning um öryggis- og varnarmál og stöðu mála í Sýrland. Stefnt er að því að styrkja samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum á grundvelli grannríkjasamningsins.

“Við höfum átt innihaldsríka fundi um samskipti landanna sem marka vonandi upphafið að sterkara sambandi Íslands og Kanada á ýmsum sviðum” segir utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherra hitti einnig fulltrúa úr kanadísku viðskiptalífi til að ræða leiðir til að auka og styrkja viðskiptasamband Íslands og Kanada.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta