Boðaði breytingar á hafnalögum og aðkomu annarra en ríkisins við uppbyggingu innviða
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarpaði í morgun fund Hafnasambands Íslands sem haldinn var í Grindavík. Hún kvaðst á komandi þingi munu leggja fram lagafrumvarp um breytingar á hafnalögum sem miði að því að bregðast við fjárhagsvanda hafna og styðja betur endurnýjun hafnamannvirkja. Ennfremur varpaði ráðherra því fram að opna fyrir hugmyndir að aðkomu annarra en ríkissjóðs að uppbyggingu innviða í landinu, til dæmis vega, flugsamgangna eða hafnarmannvirkja.
Innanríkisráðherra minnti á veigamikið hlutverk hafna, þær væru kringum 50 og þjónuðu flestar stærstu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og flutningum og gegndu mikilvægu hlutverki varðandi öryggi. Öruggar og góðar hafnir væru mikilvægur þáttur í því að halda uppi öruggum samgöngum, traustum almannavörnum og samskiptum við útlönd.
Um væntanlegar breytingar á hafnalögum sagði ráðherra markmið frumvarpsins fyrst og fremst að bregðast við þeim fjárhagsvanda sem snúi að höfnum landsins auk annarra breytinga, svo sem á ákvæðum um neyðarhafnir. Mikilvægt væri að eigendur hafna geti gert með sér samning um samrekstur einstakra þátta er varði rekstur hafna og hún sagði einnig standa til að breyta ákvæðum um ríkisstyrki, m.a. er varðar endurbyggingar og endurbætur á skjólgörðum, bryggjum, nýframkvæmdum, rekstri hafnsögubáta, innsiglingarmerki, löndunarkrana og hafnarvogir.
Tækifæri liggja víða
Um frekari aðkomu einkaaðila við uppbyggingu í hagkerfinu minnti ráðherra á stöðu ríkissjóðs, tími hagræðingar væri ekki liðinn og forgangsverkefni væri að rétta af rekstur ríkisins. ,,En burtséð frá stöðu ríkissjóðs þá eigum við að vera opin fyrir aðkomu annarra en ríkisins að uppbyggingu innviða í landinu, hvort sem það er við uppbyggingu vega, flugsamgangna eða hafnarmannvirkja. Hér á landi er mikil þörf fyrir fjárfestingu en það sem skiptir meira máli er að út um allt land leynast mikil fjárfestingartækifæri,” sagði ráðherra og nefndi sem dæmi fyrirhugaðar rannsóknir í samstarfi við einkaaðila á mögulegri stórskipahöfn í Finnafirði. Þar væri ekki gert ráð fyrir fjárhagslegum stuðningi ríkisins og megintilgangur hafnar í Finnafirði yrði að þjóna norðurskautssiglingaleiðinni á móti umskipunarhöfn í Alaska.
Í lokin hvatti innanríkisráðherra fundarmenn til að horfa til framtíðar og minnti á tækifæri til uppbyggingar á hafnastarfsemi samhliða breytingum á Norðurslóðum. Þau tækifæri tengdust reglubundnum siglingum um svæði sem áður hafi verið ófær, einnig áformum um auðlindanýtingu á Grænlandi og margs konar áskoranir væru vegna aukinnar skipaumferðar í og við efnahagslögsgöguna, Í lokin sagði ráðherra um tækifærin sem tengdust Norðurslóðaumræðunni: ,,Við höfum aðstöðuna, við höfum tæknina, við höfum þekkinguna til að byggja hafnir og við höfum þekkinguna á því að stýra skipaumferð. Umfram allt þá höfum við viljann til að laða hingað til lands erlendar fjárfestingar, til að efla atvinnulífið, til að einfalda regluverk og viljann til að sjá þjóðfélagið okkar vaxa og dafna.”