Hoppa yfir valmynd
4. október 2013 Utanríkisráðuneytið

70 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Rússlands

Fánar Íslands og Rússlands
Fánar Íslands og Rússlands

Sjötíu ár eru í dag, 4. október, liðin frá því að stjórnmálasamband komst á milli Íslands og Sovétríkjanna og þar með arftökuríkisins Rússneska sambandsríkisins.

Stjórnmálasambandsins er minnst með margvíslegum hætti. Rit með grunnskjölum sem varða samskipti ríkjanna er gefið út af Sögufélaginu í samvinnu við utanríkisráðuneytið, auk þess sem Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson kemur nú í fyrsta sinn út á rússnesku. Nú stendur yfir yfirlitssýning á verkum Jóhannesar S. Kjarval í Marmarahöllinni í Pétursborg og á morgun verður opnuð sýning á verkum Alexander Rodchenko og Kjarval  á Kjarvalsstöðum. Þá munu Moscow virtuosi leika sígild meistaraverk á tónleikum í Hörpu í kvöld.

Stjórnmálasamband komst á milli Íslands og Sovétríkjanna þegar jákvætt svar ríkisstjórnar Íslands, 30. september 1943, við umleitan Sovétstjórnarinnar, 22. september 1943 var formlega móttekið í Moskvu 4. október 1943. Slíku sambandi var einungis komið á gagnvart 5 ríkjum fyrir stofnun lýðveldis 1944. Ljóst er því að í sögu íslenskra utanríkismála skipa samskiptin við Rússland mikilvægan sess.

Þrátt fyrir þau takmörk sem Kalda stríðið setti, hafa tvíhliða samskipti ríkjanna alla tíð verið góð og um margt nánari en gerðist og gekk í samskiptum austurs og vesturs þá fjóra áratugi sem Kalda stríðið stóð. Meginþáttur í samskiptum ríkjanna á þeim árum voru öflug viðskiptatengsl. Þótt mjög hafi dregið úr umfangi viðskipta ríkjanna eftir 1990 eru þau nú á ný vaxandi og sífellt fjölbreyttari. 

Tengsl Íslands og Rússlands, almennt séð, eru fjölbreyttari en áður með tilkomu opnari samskipta stofnana jafnt og fyrirtækja sem og almennra borgara og samtaka þeirra. Rammi samskiptanna hefur verið formfestur með fjölda samninga og jafnframt hafa samskipti ríkjanna á alþjóðlegum vettvangi og innan svæðis­bundinna stofnana aukist til mikilla muna á undanförnum tveimur áratugum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta