Hoppa yfir valmynd
11. október 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Setning nýsköpunarráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands

Góðir gestir.

Öflugt nýsköpunarstarf verður aldrei ofmetið. Það er því ánægjuefni að Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands efni nú í fyrsta sinn til nýsköpunarráðstefnu til að kynna verkefni og hugmyndir um nýsköpun í heilbrigðisvísindum. Ég er afar ánægður með þá áherslu sem hér er lögð þar sem sérstaklega er litið til tilgangs og gagns verkefnanna fyrir samfélag og atvinnulíf og á hagnýtingu sem leiðir til ávinnings og virðisauka.

Ég rak augun í skilgreiningu á nýsköpun sem felur í sér að það sé „eitthvað einstakt, nýtt og mikilvægt á hvaða sviði sem er og nær fótfestu á markaði eða í samfélaginu. Nýsköpunarferlið sameinar oftast margar nýstárlegar hugmyndir þannig að það hafi áhrif á samfélagið.“

Skil á milli fræðasviða verða stöðugt óljósari. Í stað hárra múra milli greina eins og áður var raunin renna þær meira og meira saman í þverfaglegu samstarfi. Þekking á einu sviði nýtist þannig fleirum og þegar vísindafólk úr ólíkum greinum leggur saman krafta sína, þekkingu og hugmyndir opnast ný tækifæri og til verða nýjar lausnir sem án þverfaglegs samstarfs væru óhugsandi.

Háskólasamfélagið er mikilvægur akur nýsköpunar. Lifandi, opinn og fordómalaus skóli þar sem virðing er borin fyrir öllum fræðigreinum og áhersla lögð á samstarf og samvinnu. Slíkur skóli er líklegur til að skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpun. Menntun er svo margt fleira en að læra fræðin sín. Menntun felst einnig í því að opna huga sinn, að vera móttækilegur fyrir því sem er nýtt og framandi, að fyllast fróðleiksþorsta og að rækta með sér skapandi hugsun. Þetta er það sem góður háskóli ræktar, styður við og ýtir þar með undir frumkvæði og nýsköpun.

Það er gaman að segja frá því að á næsta ári fer Ísland með formennsku í norrænu samstarfi á sviði norrænu ráðherranefndarinnar. Þegar hefur verið ákveðið að Ísland muni leggja áherslu á samvinnu þjóðanna á sviði velferðartækni þar sem mótaðar verða hugmyndir að lausnum sem stuðla að eða viðhalda gæðum og öryggi í félags- og heilbrigðisþjónustu.

Þörfin fyrir nýsköpun á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu er svo sannarlega fyrir hendi. Það er mikilvægt að vinna að frumlegum og snjöllum leiðum og lausnum sem nýtast í þeirri viðleitni að halda úti öflugri og góðri heilbrigðisþjónustu. Þið eruð þátttakendur í því.

Gangi ykkur allt í haginn.

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta