Hoppa yfir valmynd
17. október 2013 Innviðaráðuneytið

Aðkoma samtaka launafólks að lausn húsnæðisvandans mikilvæg

Frá þingi Starfsgreinasambandsins í Hofi á Akureyri
Frá þingi Starfsgreinasambandsins í Hofi á Akureyri

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fagnar því að Starfsgreinasamband Íslands lýsir vilja til þess að vinna með stjórnvöldum að lausn húsnæðisvandans í landinu. Eygló ávarpaði fjórða landsþing starfsgreinasambandsins sem haldið var á Akureyri í gær.

Í ávarpinu ræddi ráðherra um atvinnuástand, fyrirhugaða stefnumótun á sviði vinnumarkaðsmála, kjarasamningaviðræðurnar sem framundan eru og síðast en ekki síst um áhyggjur sínar af stöðu húsnæðismála þar sem leigumarkaðurinn stæði enganvegin undir nafni og margir hefðu ekki getu eða aðstæður til þess að kaupa sér húsnæði. Eygló sagði augljóst að ráðast þyrfti í aðgerðir til að skapa þá umgjörð sem færi fólki raunhæfa valkosti í samræmi við getu og þarfir og tryggi nauðsynlegt húsnæðisöryggi. Þetta sé hægt en til þess þurfi samráð, samvinnu og samtöðu um leiðir. Hún ræddi um þá vinnu sem þegar er hafin við mótun framtíðarstefnu í húsnæðismálum og sagðist talsmaður þess að stjórnvöld og samtök launafólks taki höndum saman um aðgerðir til að leysa húsnæðisvandann. Því væri mjög ánægjulegt að Starfsgreinasamband Íslands hefði lýst vilja til þess að vinna með stjórnvöldum að málinu: „Ég hef áður rifjað upp júlísamkomulagið frá árinu 1965 þegar samkomulag náðist milli verkalýðshreyfingarinnar, ríkis og borgar um stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Samkomulagið var liður í lausn á erfiðri vinnudeilu. Þetta varð fyrirmynd að seinni tíma samningum um þjóðarsátt þar sem samið var um fleira en kaup og kjör“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Ráðherra vísaði til viðræðna um kjarasamninga sem framundan eru og sagði miklu skipta fyrir samfélagið allt hvernig til tekst: „Bætt kjör eru markmiðið en stóra spurningin er hvaða leiðir eru líklegastar til að það náist. Launahækkanir í krónum talið skila litlu ef þær fara beint út í verðlagið með tilheyrandi verðbólgu og þeim slæmu áhrifum sem af henni leiðir. Samningarnir framundan verða eflaust ekki auðveldir. Það skiptir því öllu máli að aðilar gangi að borðinu með opnum huga og reiðubúnir að skoða ólíkar leiðir til að nálgast viðfangsefnið þannig að árangur náist sem allir geta sætt, bætir lífskjör fólks en stefnir ekki stöðugleika í hættu. Sjálf mun ég gera það sem í mínu valdi stendur til þess að bæta lífskjör fólks í landinu.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta