Íslenski sjávarklasinn kynnti innanríkisráðherra stefnu sína til 2030
Flutninga- og hafnahópur Íslenska sjávarklasans hefur gefið út ritið Stefna til 2030 en þar er að finna samantekt um bakgrunn og stefnumótun fyrir Ísland sem miðstöð fyrir flutninga um Grænland og þjónustumiðstöð í Norður-Atlantshafi. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók á móti fulltrúum Sjávarklasans sem afhentu henni ritið en ráðherra skrifar formála þess.
Ritstjóri er Haukur Már Gestsson og kynnti hann stefnuna nokkrum orðum en hún inniheldur einkum þrjú forgangsverkefni:
- Ísland sem þjónustumiðstöð fyrir Grænlandi.
- Eflingu rannsókna, menntunar og þróunar.
- Ísland sem þjónustumiðstöð á Norður-Atlantshafi.
Einnig hafa fyrirtækin í Sjávarklasanum sett stefnuna á áframhaldandi klasasamstarf svo og aukið samstarf milli stjórnvalda og fyrirtækja í flutningum og vörustjórnun.
Hanna Birna Kristjánsdóttir þakkaði fulltrúum Sjávarklasans fyrir skýrsluna og sagði flutningageirann eina mikilvægustu atvinnugrein landsins sem margir gerðu sér þó ekki grein fyrir. Hún væri undirstöðuatvinnugrein sem þjónaði til dæmis álframleiðslu, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Í formála ritsins segir ráðherra meðal annars: ,,Með hröðum flutningum hefur okkur Íslendingum tekist að hækka til muna verðmæti einnar okkar helstu auðlindar, sjávarafurða. Í dag komum við ferskum fisk á markaði erlendis innan 48 klukkustunda frá því að hann er veiddur. Flutningur á sjávarafurðum er ekki síður mikilvægur þáttur í því að hámarka virði auðlindarinnar en veiðarnar og vinnslan. Að sama skapi fáum við hingað til lands ferskar vörur, s.s. ávexti og aðrar vörur sem skapa hér lífsgæði.”
Þá bendir ráðherra á að framundan séu margvísleg tækifæri og brýnt sé að horfa til framtíðar: ,,Við höfum aðstöðuna, við höfum tæknina, við höfum þekkinguna. Umfram allt þá höfum við viljann til að laða hingað til lands erlendar fjárfestingar, til að efla atvinnulífið, til að einfalda regluverk og viljann til að sjá þjóðfélagið okkar vaxa og dafna. Það gerum við meðal annars með öflugum innviðum sem styðja enn frekar við öfluga flutningastarfsemi.”
Ritið Stefna til 2030 er 48 bls. og er aðgengilegt á vef Sjávarklasans.