Ný hjúkrunarheimili risin í níu sveitarfélögum á fjórum árum
Frá árinu 2010 hafa risið nýbyggingar með samtals 340 hjúkrunarrýmum í níu sveitarfélögum. Framkvæmdir standa yfir við byggingu 160 hjúkrunarrýma til viðbótar í fimm sveitarfélögum sem flest verða tekin í notkun á næsta ári.
Mikilvægur liður í þessari uppbyggingu hefur verið að bæta aðbúnað aldraðra, taka úr notkun fjölbýli og fjölga einbýlum sem uppfylla viðmið velferðarráðuneytisins um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Hjúkrunarrýmum fjölgar því ekki sem nemur uppbyggingunni þar sem stór hluti þeirra leysir af hólmi eldri rými sem ekki standast nútímakröfur. Árið 2011 sýndi könnun velferðarráðuneytisins að um 67% íbúa á hjúkrunarheimilum bjuggu í einbýli en fyrir tæpu ári var hlutfallið komið í um 85%.
Fjármögnun flestra hjúkrunarheimilanna sem risið hafa á liðnum árum byggist á svokallaðri leiguleið þar sem til grundvallar liggur samningur milli viðkomandi sveitarfélags annars vegar og velferðarráðuneytis- og fjármálaráðuneytis hins vegar. Sveitarfélögin annast hönnun og verklega þætti og fjármagna framkvæmdirnar. Á móti greiðir ríkið húsaleigu til fjörutíu ára sem svarar til 85% stofnkostnaðar úr Framkvæmdasjóði aldraðra á móti 15% sem sveitarfélagið leggur til.
Árið 2009 tóku stjórnvöld ákvörðun um leita samninga við níu sveitarfélög um uppbyggingu hjúkrunarheimila samkvæmt leiguleiðinni og nýlega bættust tvö sveitarfélög í þann hóp. Á árunum 2010-2011 voru tekin í notkun 164 hjúkrunarrými samtals í Reykjavík, Kópavogi og Snæfellsbæ sem fjármögnuð voru með hefðbundinni leið. Sveitarfélög sem hafa byggt eða eru að byggja hjúkrunarheimili samkvæmt leiguleiðinni eru Akureyri, Borgarbyggð, Garðabær, Mosfellsbær, Reykjanesbær, Fljótsdalshérað, Bolungarvík og Ísafjörður. Auk þessa er áformað að byggja hjúkrunarheimili í Hafnarfirði, á Seltjarnarnesi og í Kópavogi með samtals 134 hjúkrunarrýmum en ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir hefjast.