Hoppa yfir valmynd
24. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Níu milljónir króna veittar í styrki úr Jafnréttissjóði

Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra á málþinginu
Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra á málþinginu

Úthlutað var styrkjum úr Jafnréttissjóði í dag á kvennafrídaginn 24. október. Veittir voru styrkir til fimm rannsóknarverkefna á sviði jafnréttis- og kynjafræða. Úthlutunin fór fram í tengslum við málþing Jafnréttissjóðs; Kyn og fræði: ný þekking verður til. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra flutti ávarp við upphaf málþingsins.

Rannsóknarverkefnin fimm sem styrkirnir renna til að þessa sinni eru rannsókn á viðhorfum unglinga til jafnréttis og verkaskiptingar kynja, rannsókn á hlut og hlutverki kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna, rannsókn á kynbundnum launamun háskólamenntaðra ári eftir útskrift, rannsóknin; Hin íslenska móðir: Orðræða og upplifun og rannsókn á áhrifum atvinnuleysis á sálfræna líðan karla og kvenna. Nánari upplýsingar um verkefnin og einstaklingana að baki þeim er að finna í fréttatilkynningu Jafnréttissjóðs hér að neðan.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, rifjaði upp þætti úr sögu kvennahreyfingarinnar við þetta tækifæri og ýmsa sigra sem hafa áunnist en sagði jafnframt: „Við sem hér erum vitum hins vegar að öflug kvennahreyfing er nauðsynleg en ekki nægileg forsenda framþróunar í jafnréttismálum. Rannsóknir og kortlagning á stöðu og þróun kynjajafnréttis skipta einnig miklu máli. Þekking er undirstaða þess að við getum skilgreint og framkvæmt þau nauðsynlegu verkefni sem miða að réttlátara samfélagi. Jafnréttissjóður þjónar þeim tilgangi að tryggja uppsprettu nýrra hugmynda og miðlun þekkingar á sviði kynjarannsókna.“

Ráðherra sagði einnig að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga væri gagnlegt að hafa svör á reiðum höndum við því af hverju færri konur eru í forystusætum framboðslista en karlar, af hverju þær staldra skemur við í stjórnum bæjar- og sveitarfélaga og af hverju karlarnir sinna einkum skipulagsmálum en konur velferðarmálum: „Það þarf að rannsaka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum því við þurfum að vita hvernig við eflum hlut þeirra við stjórn málefna nærsamfélagsins sem fela í sér mikilvæga þjónustu við almenning, bæði karla og konur.“

Fréttatilkynning Jafnréttissjóðs 24. október 2013

Í dag, á kvennafrídaginn 24. október, var úthlutað styrkjum úr Jafnréttissjóði á málþingi sjóðsins þar sem jafnframt var gerð grein fyrir rannsóknum sem sjóðurinn styrkti á liðnu ári.

Í ár voru veittir fimm styrkir, samtals að upphæð níu milljónir króna. Styrkþegar eru: Andrea Hjálmsdóttir, lektor við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri til rannsóknar á viðhorfum unglinga til jafnréttis og verkaskiptingar kynjanna, Arndís Bergsdóttir doktorsnemi við Háskóla Íslands til rannsóknar á hlut og hlutverki kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands til rannsóknar á kynbundnum launamun háskólamenntaðra ári eftir útskrift, Sunna Kristín Símonardóttir doktorsnemi við Háskóla Íslands til rannsóknarinnar Hin íslenska móðir: Orðræða og upplifun og loks Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor við Háskólann í Reykjavík til rannsóknar á áhrifum atvinnuleysis á sálræna líðan karla og kvenna. Í mörgum tilvikum vinna nemar og aðrir samstarfsmenn að rannsóknum með háskólakennurum.

Í aðdraganda 30 ára afmælis kvennafrídagsins 1975 samþykkti ríkisstjórn Íslands  árið 2005 að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, sem ætlað er að veita fé til rannsókna á stöðu karla og kvenna. Sjóðnum er ætlað að vera framlag og hvatning til þess að hér á landi séu unnar vandaðar rannsóknir á sviði jafnréttis- og kynjafræða. Lögð er áhersla á að veita fé annars vegar til rannsókna á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og hins vegar til rannsókna á áhrifum gildandi löggjafar á sviði jafnréttismála. Þess utan er talið mikilvægt að styrkja rannsóknir á þeim málum sem eru ofarlega á baugi í fræðilegri og opinberri umræðu hverju sinni. Sérstaklega er horft til þátttöku ungra vísindamanna í rannsóknarverkefnum og þess að styrkja doktorsrannsóknir á sviðinu.

Sjóðurinn starfar samkvæmt reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs nr. 513/2006. Jafnréttissjóður er vistaður í forsætisráðuneyti og skipar forsætisráðherra formann sjóðsins sem er Rósa Guðrún Erlingsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti og doktorsnemi við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Aðrir í stjórn sjóðsins eru Jóna Pálsdóttir, tilnefnd af menntamálaráðherra og Ingi Valur Jóhannsson, tilnefndur af velferðarráðherra. Varamenn eru Stefán Stefánsson deildarstjóri í menntamálaráðuneyti, Rán Ingvarsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti og Hildur Jónsdóttir jafnréttisfulltrúi í forsætisráðuneyti.

Í ár er veitt úr sjóðnum í fimmta skipti en áður voru veittir styrkir árin 2006, 2007, 2008 og 2012. Sjóðurinn starfaði ekki á árunum frá 2009-2011. Að þessu sinni bárust 14 umsóknir og var alls sótt um 37 milljónir króna.

Allar nánari upplýsingar veita: Rósa Guðrún Erlingsdóttir, formaður Jafnréttissjóðs, í gsm. 6150698 eða [email protected] og Hildur Jónsdóttir í gsm. 863 5383 eða [email protected]

Styrkhafar og fulltrúar úr stjórn Jafnréttissjóðs

Nánar um rannsóknir styrkþega 2013:

Viðhorf unglinga til jafnréttis og verkaskiptingar kynjanna.

Styrkþegi er Andra Hjálmsdóttir, lektor við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Verkefnisstjóri er Ársæll Már Arnarson, prófessor við sama skóla.  Sótt var um til Jafnréttissjóðs til seinni hluta rannsóknaverkefnis sem snýr að því að kanna viðhorf unglinga til jafnréttis og verkaskiptingar kynjanna.  Framkvæmd rannsóknarinnar sem hér er styrkt felst í því að meta breytingar á jafnréttisviðhorfum unglinga frá árinu 1992 til ársins 2014. Verður það gert með greiningu og samanburði á gögnum sem unnin eru upp úr þremur viðamiklum könnunum sem lagðar hafa verið fyrir nemendur úr öllum 10. bekkjum grunnskóla á Íslandi á umræddu tímabili.  Fyrri rannsóknir hafa sýnt vaxandi íhaldssemi meðal ungs fólks hvað varðar jafnréttismál og mun þessi rannsókn staðfesta þá niðurstöðu er mikilvægt að auka jafnréttisfræðslu á grunnskólastigi.  Þá getur niðurstaða rannsóknarinnar einnig haft áhrif annars vegar til viðhorfsbreytinga sem móta bæði líf einstaklinga og hins vegar á opinbera stefnumótun svo sem  hvað varðar samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og uppbrot kynbundis náms- og starfsvals. Markmiðssetning og tímaáætlun er raunhæf og hagnýtt gildi verkefnsins fyrir markmið Jafnréttissjóðs mikil þegar til langs tíma er litið.
Styrkupphæð: 1,0 milljón króna.

Í höftum fjarveru: Rannsókn á hlut og hlutverki kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna.

Styrkþegi er Arndís Bergsdóttir, doktornemi við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri og leiðbeinandi er Sigurjón Baldur Hafsteinsson, dósent við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar, sem er hluti þverfræðilegs doktorsverkefnis í safna- og kynjafræði er að draga upp mynd af framsteningu kvenna á íslenskum menningarminjasöfnum.  Auk þess að hafa þekkingarfræðilegt gildi á sviði ofangreindra fræðigreina er markmið umsækjanda að niðurstöður rannsóknarinnar myndi grundvöll markvissrar fræðslu um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í sýningargerð og öðru starfi safna sem starfa undir merki hlutleysis. Nýmæli rannsóknarinnar eru mikil þar sem þetta svið er að mestu órannsakað hér á landi. Tíma- og rannsóknaráætlun er raunhæf og líklegt að aðferðafræði rannsóknarinnar leiði umsækjanda að þeim markmiðum sem stefnt er að samkvæmt umsókninni. Stjórn Jafnréttissjóðs telur mikilvægt að styrkja doktorsverkefni á sviði jafnréttis- og kynjafræða einkum þar sem nýmæli rannsókna er mikið.
Styrkupphæð 2,250 krónur.

Kynbundinn launamunur háskólamenntaðra ári eftir útskrift.

Styrkþegi er Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.  Verkefnisstjóri er Andrea Gerður Dofradóttir sérfræðingur við sömu stofnun, auk þeirra situr Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði í verkefnisstjórn. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að gera tölfræðilega greiningu meðal nýútskrifaðra karla og kvenna úr Háskóla Íslands á stöðu þeirra á vinnumarkaði og kanna hvort kynbundinn launamunur sé til staðar í hópi þeirra serm eru í launuðu starfi ári eftir útskrift. Kannanir sem gerðar hafa verið hérlendis benda til þess að konur séu eingöngu með 80% af launum karla einu ári eftir útskrift. Jafnframt er vísað til erlendra rannsókna sem sýna að kynbundinn launamunur er talsverður við upphaf starfsferils háskólamenntaðra.  Miðað við aðferðafræði og þær skýribreytur sem valdar hafa verið má ætla að rannsóknin nái markmiðum sínum og að greiningin muni hafa þýðingu fyrir stefnumótun stjórnvalda á sviði vinnumarkaðs- og jafnréttismála og þá sérstaklega fyrir aðgerðir sem miða að auknu launajafnrétti á vinnumarkaði.
Styrkupphæð 2,0 milljónir króna

Hin íslenska móðir: Orðræða og upplifun.

Styrkþegi er Sunna Kristín Símonardóttir, kynjafræðingur og doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi verkefnis er Ingólfur V. Gíslason, lektor í félagsfræði við sama skóla. Markmið verkefnisins er að skoða hvernig íslenskar konur upplifa og aðlaga sig að móðurhlutverkinu, auk þess að skoða ráðandi orðræður um móðurhlutverkið sem menningarlega og sögulega ákvarðað atferli. Rannsóknin skoðar með hvaða hætti orðræða hins „náttúrulega“ birtist á Íslandi þegar kemur að barneignum og umönnum barna og skoða hvernig merkimiðarnir um hina „góðu“ og „slæmu“ móður eru notaðir til þess að stjórna valkostum og hegðun kvenna. Byggt er bæði á eigindlegum og megindlegum rannsóknaraðferðum.  Fyrirliggjandi gögn úr rannsókninni Barneign og heilsa verða greind og viðhorf og reynsla mæðra könnuð með hálfstöðluðum viðtölum og rýnihópum auk þess sem að textagreiningu verður beitt á upplýsinga- og fræðsluefni sem tengist mæðravernd og meðgöngu. Nýmæli rannsókninnar er mikið þar sem skortur er á rannsóknum um skilning okkar á móðurhlutverkinu og getur hún verið mikilvægt innlegg í samfélagslega umræðu um foreldrahlutverk karla og kvenna og þ.a.l um jafnréttismál.
Styrkupphæð 2,250 króna

Áhrif atvinnuleysis á sálræna líðan: Eru áhrifin ólík eftir kynjum.

Styrkþegi er Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og Teachers College, Columbia University. Verkefnisstjóri er Haukur Freyr Gylfson, forstöðumaður meistaranáms í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Reykjavík.

Markmið verkefnisins er að skoða breytileika andlegrar heisu á milli kynjanna eftir stöðu á vinnumarkaði. Sérstaklega er ætlunin að skoða hvort félagsauður dragi mismikið úr neikvæðum áhrifum atvinnuleysis á andlega heilsu kynjanna. Niðurstöður verða greindar og fjallað um þær mismunandi leiðir sem fýsilegt væri fyrir stjórnvöld að velja hvað varðar stuðning við konur og karla vegna atvinnumissis.  Kynjaskipting starfa er mjög mikil á íslenskum vinnumarkaði bæði hvað varðar hlutfall kynjanna innan hinna ólíku starfsgreina og að því er varðar hlutfall karla og kvenna í stjórnunarstöðum. Orsakir þessa má meðal annars rekja til kynjaskiptingar í menntakerfinu en þrátt fyrir stóraukinn hlut kvenna í skólakerfinu er námsval enn mjög kynbundið sem hefur að sjálfsögðu áhrif á starfsval einstaklinga. Því má telja eðlilegt að spyrja hvort kynin þurfi á mismunandi aðstoð að halda við að komast aftur inn á vinnumarkað eftir atvinnumissi. Aðferðafræði verkefnisins byggir á því að unnið verður með gögn úr viðamiklu gagnasafni rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga þar sem er að finna upplýsingar um stöðu einstaklinga á vinnumarkaði frá 2007-2012 og einnig mælingar á líðan og félagsauð þátttakenda. Sótt er um styrk til að greiða launa- og rekstrar kostnað annars vegar og ferðakostnað hins vegar. Vinnan felst í skilgreiningu og endurkóðun þeirra gagna sem fyrirliggja, tölfræðilegri greiningu og skýrsluskrifum.
Styrkupphæð er 2,0 milljónir króna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta