Norrænir jafnréttisráðherrar ræddu áhrif hlutastarfa á stöðu kynjanna
Ný norræn rannsókn um áhrif hlutastarfa á á stöðu kynjanna í efnahagslegu tilliti var meðal umfjöllunarefna á fundi norrænu jafnréttisráðherranna í Stokkhólmi síðastliðinn föstudag. Mikill munur er á milli landa þegar skoðað er hvaða áhrif hlutastörf hafa á eftirlaun kvenna í samanburði við eftirlaun fólks í fullu starfi. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti fyrirhugaðar áherslur Íslands í jafnréttissamstarfi þjóðanna á formennskuárinu 2014.
Rannsóknin um hlutastörf; Part-Time Work, Gender and Economic Distribution in the Nordic Countries,var unnin fyrir Norrænu ráðherranefndina og skýrsla með niðurstöðunum kom út í síðustu viku. Þar kemur meðal annars fram að hlutastörf eru algeng á Norðurlöndunum og miklu algengara að konur vinni í hlutastörfum en karlar. Munurinn er álíka mikill í öllum löndunum nema í Finnlandi. Flestar konur eru í hlutastarfi í Noregi, eða um 36% af konum á vinnumarkaði á aldrinum 25 til 64 ára, árið 2012. Í Danmörku voru 29% kvenna í hlutastarfi árið 2012 en 31% sænskra kvenna og 26% íslenskra kvenna. Finnlandi sker sig hins vegar úr, þetta ár voru 15 prósent finnskra kvenna í hlutastörfum.
Enn heyrir nánast til undantekninga að karlar séu í hlutastörfum. Algengast er það í Noregi en fátíðast á Íslandi.
Yfirleitt eru það foreldrar sem vilja samþætta vinnu og fjölskyldulíf sem velja hlutastörf. Talið er að möguleikinn á því að vera í hlutastarfi hafi stuðlað að mikilli atvinnuþátttöku kvenna á Norðurlöndunum, sveigjanleikinn sem hlutastörfum fylgi henti konum, fjölskyldum og atvinnurekendum. Aftur á móti er bent á að þegar atvinnuleysi eykst gegni fleiri hlutastörfum, jafnvel um langan tíma, án þess að það sé að eigin vali. Þetta hafi komið fram í kjölfar efnahagskreppunnar á tíunda áratug síðustu aldar og fjármálakreppunnar 2008.
Í skýrslunni er fjallað um muninn á eftirlaunum kvenna sem starfað hafa í fullu starfi alla starfsævina og hinna sem gegnt hafa hlutastarfi einhvern hluta starfsævinnar. Rannsakendur reiknuð út nokkur dæmi þar sem borin voru saman eftirlaun kvenna í fullu starfi og kvenna sem höfðu verið tíu ár starfsævinnar í hlutastarfi. Gefnar voru sömu forsendur en niðurstöður urðu ólíkar eftir því hvaða lönd áttu í hlut. Munurinn í Danmörku og Noregi er lítill. Þar fengu konur sem voru í hlutastarfi 98-99% af eftirlaunum þeirra sem voru í fullu starfi. Í Finnlandi, Svíþjóð og á Íslandi urðu eftirlaunin aftur á móti 4-6% lægri. Munurinn liggur í eftirlaunakerfunum og hvernig eftirlaun eru reiknuð.
Nánar um skýrsluna á vef Norðurlandaráðs
Jafnrétti á vinnumarkaði efst á baugi í norrænu jafnréttisstarfi
Undir forystu Svía í Norrænu ráðherranefndinni árið 2013 hefur jafnrétti á vinnumarkaði verið eitt af forgangsverkefnunum á sviði jafnréttismála. Íslendingar munu fara með formennsku í Norðurlandasamstarfinu árið 2014. Á fundi ráðherranna í Stokkhólmi kynnti Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, áherslur Íslands í norrænu samstarfi næsta árs en hún mun leiða starfið sem samstarfsráðherra.
Á næsta ári eru 40 ár liðin frá því að formlegt samstarf Norðurlandanna hófst á sviði jafnréttismála. Af því tilefni verður efnt til ráðstefnu um árangur og framtíðarmarkmið Norðurlandanna í jafnréttismálum. Samhliða ráðstefnunni verður fundur jafnréttisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Að öðru leyti munu Íslendingar leggja áherslu á jafnrétti kynja á vinnumarkaði, þátttöku karla í jafnréttisstarfi, leiðir til að draga úr kynbundnu ofbeldi, vestnorrænt samstarf og samvinnu á Norðurslóðum.