Fríverslunarsamningur myndi hafa jákvæð efnahagsáhrif á öllu EES
Viðræður Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um fríverslunar- og fjárfestingasamning bar hæst á fundi norrænna viðskiptaráðherra sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríksráðherra, sat í Ósló í morgun. Rætt var um efni viðræðnanna og hversu fljótt samið yrði og rætt sérstaklega um hagsmuni EFTA-ríkjanna, Íslands og Noregs, í þessu ferli. Ráðherrar voru sammála um að tækjust samningar, hefði það jákvæð efnahagsleg áhrif á öllu EES-svæðinu. Þá var lagt til að Norðurlöndin skoði hvernig þau geti í sameiningu farið í markaðsátak á stórum og vaxandi mörkuðum og var ákveðið að ræða nánar hvernig staðið yrði að þessu verkefni.
Ráðherrarnir fóru yfir þróun mála vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, og væntingar til ráðherrafundar stofnunarinnar sem haldinn verður í Indónesíu í desember. Þeir voru hóflega bjartsýnir á að samningar náist um viðskiptaliprun og aukið svigrúm fyrir þróunarríki til útflutnings á landbúnaðarvörum. Þá ræddu þeir einnig hvernig viðskiptasamningar framtíðarinnar gætu tekið mið af sífellt örari tækniþróun, t.d. varðandi netverslun.