Nýr kafli í norrænu samstarfi á sviði utanríkis- og öryggismála
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í Osló. Á fundinum ræddu ráðherrarnir samstarf ríkjanna á sviði utanríkismála og þau málefni sem eru efst á baugi í alþjóðasamstarfi.
Ráðherrarnir fjölluðu meðal annars um þátttöku Finna og Svía í loftrýmiseftirliti á Íslandi í febrúar 2014. Með þátttöku ríkjanna tveggja verður brotið blað í öryggis- og varnarmálastarfi Norðurlandanna og af því tilefni munu utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna heimsækja Ísland í febrúar í boði utanríkisráðherra.
„Sú þekking og reynsla sem skapast við undirbúning, skipulagningu og framkvæmd eftirlitsins gefur okkur tækifæri til að þróa norrænt samstarf enn frekar“, segir utanríkisráðherra. Hann segir að öryggismál á norðurslóðum varði hagsmuni allra Norðurlandanna miklu. Svæðið sé friðsamlegt en sé horft til framtíðar þurfi að huga að nýjum áskorunum sem geti skapast vegna vaxandi efnahagsumsvifa og umferðar á norðurslóðum. „Vilji hinna Norðurlandanna til að vinna með okkur að þessum málum undirstrikar að gagnkvæmir hagsmunir okkar felast í að tryggja viðbragðsgetu í þessum heimshluta ef eitthvað bjátar á. Þegar fjallað er um öryggi á norðurslóðum, þar með talið leit og björgun, verður ekki fram hjá því horft að herir ríkjanna gegna þar mikilvægu hlutverki“, segir utanríkisráðherra.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir um samvinnu utanríkisþjónusta Norðurlandanna í húsnæðismálum. Skýr vilji er til að halda áfram á þeirri braut að ríkin sameinist um rekstur sendiráðahúsnæðis sem renni styrkari stoðum undir hagsmunarekstur þeirra á erlendum vettvangi.
Ráðherrarnir fjölluðu einnig um samstarf Norðurlandanna í friðargæsluverkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna, samstarf Evrópuríkja við nágrannaríki í austurhluta álfunnar og ræddu þróun mála í Mið-Austurlöndum.