Hoppa yfir valmynd
31. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrsla ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála

Jafnréttisþing 2013 - Ísland best í heimi?
Jafnréttisþing 2013 - Ísland best í heimi?

Skýrsla Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um stöðu og þróun jafnréttismála árin 2011-2013 er komin út og mun ráðherra fylgja henni úr hlaði á jafnréttisþingi 2013 sem haldið verður á morgun 1. nóvember.

Skýrslan gefur yfirlit um stöðu og þróun jafnréttis kynja á helstu sviðum samfélagsins.  Fjallað er um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, þróun launajafnréttis, hlut kynja í stjórnun atvinnulífsins og á vettvangi stjórnmálanna, kynjahlutföll í opinberri stjórnsýslu og í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum. Einnig er metin staða og árangur verkefna í gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum líkt og lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gera ráð fyrir.

Ísland skipar nú fimmta árið í röð efsta sæti lista Alþjóðaefnhagsráðsins á sviði kynjajafnréttis sem staðfestir þann góða árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála á síðustu árum. Þótt enn sé nokkuð í land svo jafnri stöðu og jöfnum áhrifum kvenna og karla verði að fullu náð ber að halda því til haga sem vel er gert og hefur borið góðan árangur. Í skýrslu ráðherra er til að mynda fjallað um áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof frá því þau tóku gildi í ársbyrjun 2001. Þrátt fyrir að breytingar hafi orðið á töku fæðingarorlofs í kjölfar efnhagsþrenginganna er ljóst er að enn tekur mikill meirihluti nýbakaðra mæðra og feðra á innlendum vinnumarkaði fæðingarorlof. Ennfremur sýna nýjar rannsóknir að hlutdeild feðra í umönnun barna hefur aukist verulega frá því að lögin tóku gildi en sú staðreynd verður að teljast til jákvæðra áhrifa laganna. 

Eftir tvö ár verða 100 ár liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þessi tímamót verða nýtt til að beina sjónum að þeim verkefnum sem miða að því að auka kynjajafnrétti á sviðum þar sem enn hallar á annað kynið. Alþjóðlega fjármálakreppan, íslenska bankahrunið og efnhagsþrengingar sem fylgdu í kjölfarið hafa haft margræð áhrif á stöðu kvenna og karla og þróun jafnréttismála. Færa má rök fyrir því að jafnari þátttaka kynja í stjórnmálum, opinberri stjórnsýslu og í nefndum, stjórnum og ráðum hafi að einhverju leyti verið afleiðing þess að kallað var eftir breytingum í kjölfar efnhagsþrenginganna.  Konur eru nú um 40% kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu og á Alþingi. Hlutfall kvenna er nú sambærilegt því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Þá hefur hlutur kvenna í stjórn atvinnulífsins aukist eftir að ákvæði um hlutfall kynja í stjórnun hlutafélaga var sett í í lög og áhrifa þeirra fór að gæta. 

Kynjaskipting starfa á vinnumarkaði er enn mjög mikil.  Eins og skýrslan sýnir er nú mun algengara en áður að ungar konur velji hefðbundnar karlagreinar eins og verkfræði og raungreinar en karlar skila sér í litlum mæli í greinar eins og hjúkrunarfræði, leikskólakennarafræði og hérlendis er hlutfall karla af vinnuafli í umönnunarstörfum lægra en hjá  nágrannaþjóðunum. Staðalmyndir um karla og konur virðast enn ráða miklu um námsval ungmenna sem síðar hefur áhrif á starfsval og atvinnuþátttöku og hefur ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir jafnrétti á vinnumarkaði t.d hvað varðar launamyndun og starfsframa.

Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og tillögur um leiðir til úrbóta sem beinast að ríki og sveitarfélögum sem atvinnurekendum og veitendum þjónustu auk þess sem tillögurnar beinast að fyrirtækjum og stofnunum. Þá er fjallað um tillögur sérstaks starfshóps um karla og jafnrétti. Tillögur hópsins miða að því að finna leiðir til að víkka náms- og starfsval karla, vinna gegn staðalmyndum kynjanna og auka þátttöku karla í verkefnum fjölskyldunnar. Einnig var hugað að neikvæðum þáttum eins og áhættuhegðun, ofbeldi og sjálfsvígum. Starfshópurinn telur mikilvægt að efla rannsóknir á sviðum jafnréttismála, sérstaklega hvað varðar rannsóknir á vændi þar sem varpa þurfi ljósi á karla sem vændiskaupendur.

Skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra verður lögð fram á lögbundnu jafnréttisþingi ráðherra og Jafnréttisráðs sem haldið verður föstudaginn 1. nóvember 2013 að Hilton Reykjavík Nordica Hótel kl. 9:00-17:00. Hlutverk þingsins er að  efna til samræðu milli stjórnvalda og þjóðar um málefni kynjaajafnréttis og gefa öllum áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Fjallað verður um fjölmargar hliðar jafnréttismála en megináhersla er að þessu sinni á jafnrétti á vinnumarkaði. Fjölmargrir taka þátt á jafnréttisþingi en fyrirlesarar og þátttakendur í pallborðum eru 74 talsins og yfir 300 gestir hafa skráð sig til leiks.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta