Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Undanfarna mánuði hefur á vegum innanríkisráðuneytisins verið unnið að þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Verkið er unnið á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 sem samþykkt var af Alþingi en það er hluti af undirbúningi fullgildingar sáttmálans.
Ágústa Þorbergsdóttir, verkefnisstjóri á málræktarsviði hjá Stofnun Árna Magnússonar, hefur borið hitann og þungann af verkinu. Hún leitaðist við að trygga samræmi í hugtakanotkun við aðra alþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að auk þess að mæta kröfum hagsmunasamtaka um endurskoðaða hugtakanotkun. Gott samráð hefur verið haft við önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Landsamtökin Geðhjálp. Enn fremur hefur verið leitað umsagnar hjá sérfræðingum í mannréttindum fatlaðs fólks.
Lokaútgáfa þýðingarinnar var send til umsagnar samráðshóps ráðuneytanna og hagsmunasamtaka vegna fullgildingar sáttmálans. Tekið var tillit til athugasemda sem þar komu fram og breytingar gerðar. Útkoman er lokaútgáfa þýðingar sem nú er birt á vef innanríkisráðuneytisins og er sá formlegi texti sem stuðst verður við í fullgildingaferlinu og birtur verður í Stjórnartíðindum að fullgildingu lokinni.