Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra skipar stjórnarskrárnefnd

Forsætisráðherra skipaði í dag nýja stjórnarskrárnefnd í samræmi við samkomulag allra þingflokka frá því í sumar. Í nefndinni sitja fulltrúar tilnefndir af þeim stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi, nánar tiltekið fjórir fulltrúar tilnefndir af ríkisstjórnarflokkunum og fjórir af stjórnarandstöðu. Formaður er skipaður af forsætisráðherra án tilnefningar. 

Samkvæmt samkomulagi þingflokka frá 2. júlí 2013 um meðferð stjórnarskrárbreytinga 2013-2017, í tengslum við afgreiðslu frumvarps til stjórnarskipunarlaga (sbr. lög nr. 91/2013 frá 11. júlí 2013), skal nefndin hafa hliðsjón af vinnu undanfarinna ára um efnið, m.a. tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi þeirrar stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005-2007. Þá er ætlunin að nýlegar stjórnarskrárbreytingar í nágrannalöndum verði einnig hafðar til hliðsjónar, sem og önnur þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi. Nefndin skal gera stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir framvindu nefndarstarfsins eftir því sem eðlilegt er. 

Um endurskoðun stjórnarskrárinnar segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að unnið verði áfram að henni með breiða samstöðu og fagmennsku að leiðarljósi. 

Þess má geta að í dag eru þrjú ár liðin frá þjóðfundinum í Laugardalshöll þar sem þúsund manns, þverskurður þjóðarinnar, komu saman til að ræða um stjórnarskrána og endurbætur á henni en fundurinn var liður í því endurskoðunarferli sem hófst árið 2005.

Stjórnarskrárnefndina skipa: 

  • Sigurður Líndal, prófessor emeritus, formaður, skipaður án tilnefningar 
  • Aðalheiður Ámundadóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Pírötum 
  • Birgir Ármannsson, alþingismaður, tilnefndur af Sjálfstæðisflokki 
  • Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastýra og varaþingmaður, tilnefnd af Bjartri framtíð 
  • Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra, tilnefndur af Framsóknarflokki 
  • Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður, tilnefnd af Vinstrihreyfingunni - grænu framboði 
  • Skúli Magnússon, héraðsdómari, tilnefndur af Framsóknarflokki 
  • Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður, tilnefnd af Samfylkingu 
  • Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður, tilnefnd af Sjálfstæðisflokki 

Stefnt er að því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir. 

Nefndin ákveður verklag sitt í samráði við forsætisráðuneytið, þ.m.t. varðandi sérfræðiaðstoð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta