VIII. Umhverfisþing hafið
Vel á fjórða hundrað manns manns sitja nú VIII. Umhverfisþing sem hófst í Hörpu kl. 9 í morgun. Meginumræðuefni þingsins er skipulag lands og hafs, sjálfbær þróun og samþætting verndar og nýtingar.
Þingið hófst með ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem fjallaði m.a. um skipulag sem mikilvægt stjórntæki til að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið, meðal annars um auðlindanýtingu, atvinnuþróun og umhverfisvernd. Ríkulegar auðlindir landsins þurfi að nýta af skynsemi ef takast eigi að tryggja velferð og hagsæld í landinu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Benti ráðherra á að brýnt sé orðið að hefjast handa við að ná á heildstæðan hátt yfir einstaka þætti landnotkunar, s.s. landgræðslu, ferðaþjónustu og afþreyingu, friðlýst svæði og náttúruvernd, orlofshúsabyggð, sauðfjár- og hrossabeit, túnrækt, kornrækt, repjurækt, skógrækt og endurheimt votlendis. Því sé stefnt að því að gerði verði landnýtingaráætlun sem verði hluti Landsskipulagsstefnu 2015 - 2026. Ráðherra kom einnig inn á skipulagsmál hafsins, vernd og nýtingu sem einnig eru til umfjöllunar á þinginu.
Aðalræðumaður Umhverfisþings er Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar sem fjallar um skipulag í víðu samhengi og sjálfbærar lausnir í því sambandi. Auk hennar er fjöldi fyrirlesara á dagskrá, en eftir hádegi skiptist þingið í tvær málstofur, þar sem annars vegar verður rætt um sjálfbæra landnýtingu og hins vegar skipulag haf- og strandsvæða.
Beina útsendingu frá þinginu má nálgast hér.
Gestir á VIII. Umhverfisþingi.