Utanríkisráðherra veitir 12,3 milljónum króna í mannúðaraðstoð til Filippseyja
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita um 12.3 milljónum króna til neyðaraðstoðar á Filippseyjum í kjölfar fellibylsins Haiyan.
Á Filippseyjum ríkir nú neyðarástand og hefur fellibylurinn haft í för með sér mikla eyðileggingu. Áætlað er að ríflega 600 þúsund manns hafi misst heimili sín og um það bil tíu þúsund manns látist í náttúruhamförunum.
Aðstoðin verður veitt með milligöngu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 2,5 milljónir manna þurfi á matvælaaðstoð að halda á svæðinu og er samhæfing aðstoðarinnar og dreifing matvæla í höndum WFP.
WFP starfar á öllum helstu neyðarsvæðum í heimi og er ein af áherslustofnunum Íslands á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar.