Ráðherra segir að styrkja beri þátttöku Íslands í EES
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, stýrði í dag fyrir hönd EFTA/EES-ríkjanna fundi EES-ráðsins í Brussel þar sem Ísland gegnir nú formennsku í fastanefnd EFTA. Utanríkisráðherra Litháens, Linas Linkevicius, stýrði fundinum af hálfu ESB en Litháen er í formennsku ráðherraráðs ESB síðari hluta árs 2013. Einnig sátu fundinn Vidar Helgesen, ráðherra EES- og ESB-mála í Noregi, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, fulltrúar aðildarríkja ESB, framkvæmdastjórnar ESB, utanríkisþjónustu ESB, EFTA-skrifstofunnar og Eftirlitsstofnunar EFTA.
Meginefni fundarins var staða og framkvæmd EES-samningsins. Af Íslands hálfu lýsti utanríksráðherra því yfir að styrkja bæri þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og að bæta þyrfti innleiðingu EES-gerða. Lagði hann áherslu á mikilvægi góðs samstarfs við ESB til þess að þetta markmið mætti nást og kallaði eftir virkri þátttöku ESB við að leysa erfið mál sem sum skapa stjórnarskrárbundin vandamál fyrir Ísland.
Ræddur var stefnurammi ESB um loftslags- og orkumál til 2030. Í þeirri umræðu lagði utanríkisráðherra m.a. áherslu á að ESB ætti mörg vannýtt tækifæri á sviði jarðvarmaorku og að Ísland geti tekið þátt í nýtingu þeirra í gegnum samvinnu á ýmsum sviðum.
Utanríkisráðherra tók upp á fundinum fríverslunarviðræður ESB við Bandaríkin og undirstrikaði að EFTA/EES-ríkin hefðu beina hagsmuni af niðurstöðu viðræðnanna. Lagði hann áherslu á mikilvægi virks upplýsingaflæðis og skoðanaskipta við EFTA/EES-ríkin á öllum stigum þeirra.
Utanríkisráðherra lagðist gegn því að ályktað yrði um makrílmálið á fundinum enda tekur EES-samningurinn ekki til fiskveiða.
Þá stýrði utanríkisráðherra fundi utanríkisráðherra EFTA/EES-ríkjanna með ráðgjafarnefnd og þingmannanefnd EFTA og greindi þar m.a. frá helstu niðurstöðum fundar EES-ráðsins og svaraði spurningum þingmanna og fulltrúa atvinnulífsins.
Á sérstökum fundi, sem einnig var haldinn í dag, ræddu ráðherrarnir um utanríkis- og öryggismál. Tekin voru fyrir málefni Sýrlands og Egyptalands. Að auki voru rædd samstarfsverkefni ESB í nokkrum ríkjum Austur-Evrópu, þ.e. Armeníu, Azerbajan, Hvíta-Rússlandi, Georgíu, Moldovu og Úkraínu og áttu sér stað áhugaverð skoðanaskipti.
Niðurstöður fundarins (á ensku)