Erindi frá Mannréttindadómstól Evrópu vegna máls Geirs H. Haarde
Innanríkisráðuneytinu hefur borist erindi Mannréttindadómstóls Evrópu þess efnis að kæra Geirs H. Haarde gegn íslenska ríkinu sé til meðferðar hjá dómstólnum.
Í erindinu er fjallað um kæru Geirs H. Haarde til dómstólsins í máli 66847/12 og sex spurningar lagðar fyrir stjórnvöld vegna kærunnar. Stjórnvöldum er gert að útvega dómstólnum enska þýðingu af niðurstöðum Landsdóms í máli gegn kæranda, sem og öðrum ákvörðunum eða niðurstöðum tengdum málinu. Veittur er frestur til 6. mars 2014 til þess að koma á framfæri skriflegri greinargerð í málinu.
Erindi dómstólsins hefur verið sent Alþingi til upplýsingar og kynnt í ríkisstjórn í morgun, en ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins fer með fomlegt fyrirsvar vegna mála sem rekin eru gegn Íslandi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.
Meðfylgjandi er erindi Mannréttindadómstóls Evrópu.
Erindi Mannréttindadómstóls Evrópu vegna máls nr. 66847/12