Landspítali á facebook: „Frábært framtak“
„Frábært framtak hjá Páli og áhöfn hans á Landspítalanum. Verður örugglega til góðs og mun vonandi stuðla að uppbyggilegri og málefnalegri umræðu um heilbrigðismál á Íslandi“ skrifaði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í færslu á fésbókarsíðu Landspítala sem var formlega opnuð í dag.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala opnaði síðuna í matsal spítalans við Hringbraut kl. 15.00 í dag að viðstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og stýrihópi síðunnar sem hefur undirbúið opnun hennar um skeið. Við undirbúninginn var meðal annars leitað í smiðju Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem hefur látið til sín taka á samfélagsmiðlinum facebook frá því í lok árs 2010 við góðar undirtektir landsmanna.
Á vef Landspítala segir að notkun samfélagsmiðla í heilbrigðisþjónustu fari vaxandi og að við undirbúning að opnun síðunnar hafi verið horft sérstaklega til Mayo Clinic í Bandaríkjunum sem ítrekað hefur fengið viðurkenningar fyrir notkun og þróun samfélagsmiðla.