Ísland undirritar Höfðaborgar-samkomulag um öryggi fiskiskipa
Undirritað var í gær svonefnt Höfðaborgar-samkomulag sem snýst um ákvæði bókunar við Torremolinos-alþjóðasamninginn um öryggi fiskiskipa. Breytt er ákveðnum atriðum um smíði og búnað nýrra skipa sem auðvelda á gildistöku bókunarinnar. Samninginn undirritaði Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, fyrir hönd Íslands á ársfundi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar sem nú stendur yfir í London.
Ísland fullgilti Torremolinos-alþjóðasamninginn árið 1986 og bókunina árið 1998 en framkvæmd samningsins hefur átt ríkan þátt í fækkun banaslysa meðal íslenskra sjómanna. Samkomulagið var kynnt siglingaráði á liðnu vori.
Alþjóðasamningur um öryggi fiskiskipa
Árið 1977 var undirritaður í Torremolinos á Spáni svokallaður Alþjóðasamningur um öryggi fiskiskipa. Samningurinn, sem Íslendingar tóku virkan þátt í að semja, var fyrsti alþjóðasamningur um öryggi fiskiskipa. Aldrei áður hafði verið mælt sérstaklega fyrir um fiskiskip í eldri alþjóðagerningum um öryggismál á sjó en ástæðan fyrir því var fyrst og fremst mismunandi kröfur ríkja um smíði og búnað skipa og rekstur þeirra.
Á níunda áratug síðustu aldar var orðið ljóst að alþjóðasamningurinn myndi ekki öðlast gildi en mörg ríki með umtalsverðan fiskiskipaflota áttu í erfiðleikum með að hrinda tilteknum ákvæðum hans í framkvæmd. Hóf þá Alþjóðasiglingamálastofnunin að endurskoða samninginn.
Þeirri endurskoðun lauk árið 1993 með Bókun við Torremolinos-alþjóðasamninginn. Bókunin uppfærði ákvæði samningsins með tilliti til þeirra tækniframfara sem höfðu átt sér stað í millitíðinni ásamt því að reyna koma móts við þau ríki sem höfðu átt í erfiðleikum með framkvæmd Alþjóðasamningsins. Rétt eins og með Alþjóðasamninginn tóku Íslendingar virkan þátt í að semja bókunina.
Alþjóðasamningurinn á vettvangi EES
Innan Evrópusambandsins er lögð rík áhersla á öryggi í siglingum. Stefna sambandsins er að siglingamálalöggjöfin byggist í grunni á alþjóðasamningum og hefur verið horft sérstaklega til gerninga Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Þann 11. desember 1997 var samþykkt tilskipun ráðsins 97/70/EB, um að setja samræmdar reglur um öryggi fiskiskipa, sem eru 24 metrar að lengd og lengri, en tilskipunin byggist á bókuninni við Torremolinos-alþjóðasamninginn. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 147/1999 var tilskipunin tekin upp í EES-samninginn. Með lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, var íslenskt lagaumhverfi m.a. lagað að henni og var hún að fullu innleidd hér á landi með reglugerð nr. 122/2004.
Höfðaborgarsamkomulagið
Þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar voru með bókuninni árið 1993 hafa mörg ríki átt í erfiðleikum með innleiðingu ákvæða samningsins. Var því boðað til nýrrar ráðstefnu, að þessu sinni í Höfðaborg í Suður-Afríku. Niðurstaða fundarins var samkomulag um framkvæmd ákvæða bókunarinnar. Samkomulagið breytir ákveðnum atriðum um smíði og búnað nýrra skipa. Þá veitir það heimild til að innleiða ákvæði bókunarinnar í áföngum og ýmsar undantekningar eru veittar með ákveðnum skilyrðum. Meginefni bókunarinnar eru þó óbreytt og hefur hún því takmörkuð áhrif hér á landi.