Gunnar Bragi fundar með aðstoðarutanríkisráðherra Ungverjalands
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, fundaði í dag með Zsolt Németh, aðstoðarutanríkisráðherra Ungverjalands. Á fundi ráðherranna ákváðu þeir að setja á fót vinnuhóp milli þjóðanna til þess að auka enn frekar samstarf í verkefnum tengdum jarðvarma en Gunnar Bragi gangsetti jarðhitaáætlun fyrr í dag á vegum Þróunarsjóðs EFTA.
Stjórnvöld í Ungverjalandi stefna á að minnka orkuþörf sína og auka hlut umhverfisvænna orkugjafa á næstu árum. Styður jarðhitaáætlunin það starf með því að hjálpa hitaveitum sem hafa verið að nýta jarðgas sem orkugjafa til þess að nota jarðhita.
Gunnar Bragi sagði samskipti ríkjanna einkennast af mörgum sameiginlegum hagsmunum þótt fjarlægð milli landanna væri nokkur. Tækifærin lægju þar helst í jarðhitaverkefnum þar sem Íslendingar byggju yfir mikilli sérþekkingu og reynslu.
Þá ræddu ráðherrarnir um skuldavanda heimilanna. Hrósaði aðstoðarráðherrann Íslendingum fyrir hugmyndaauðgi í lausnum á þeim vanda og árangri. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að fólk hefði trú á sinni framtíð í því samhengi.
Németh sagði íslenska læknanema vera bestu sendiherra Ungverjalands á Íslandi til kynningar á landinu og menningu þess. Um 160 manns af ungverskum uppruna búa á Íslandi en rúmlega 100 Íslendingar í Ungverjalandi, flestir af þeim í læknisfræðinámi í Debrecen.