Utanríkisráðherra hleypir af stokkunum jarðhitaáætlun á vegum Þróunarsjóðs EFTA í Ungverjalandi
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ávarpaði í dag ráðstefnu sem haldin er í Búdapest til að hleypa af stokkunum jarðhitaáætlun á vegum Þróunarsjóðs EFTA í Ungverjalandi. Meginþungi áætlunarinnar er fólginn í að auka nýtingu jarðhita hjá hitaveitum sem notað hafa jarðgas sem orkugjafa, en hluti hennar rennur jafnframt til að auka vitund almennings um endurnýjanlega orkugjafa og til námsstyrkja, þ. á m. til að sækja námskeið Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi.
Utanríkisráðherra gerði í ávarpi sínu grein fyrir árangri Íslendinga við beislun jarðhitans á sl. 40 árum og á hvern hátt Þróunarsjóður EFTA getur nýst til að fjármagna tilraunaverkefni á þessu sviði. Ráðstefnuna sóttu einnig fulltrúar fyrirtækja sem starfa á sviði jarðhitanýtingar auk fulltrúa Jarðhitaskólans og annarra menntastofnana, en þau fengu á ráðstefnunni tækifæri til að kynna stafsemi sína fyrir á annað hundrað ungverskum fyrirtækjum sem hana sóttu.
Þróunarsjóður EFTA er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi til að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði á Evrópska efnahagssvæðinu og styrkja tvíhliða tengsl EES/EFTA-ríkjanna við styrkþegaríkin í Suður- og Austur-Evrópu. Ísland hefur forgangsraðað jarðhita sem áhersluþætti samvinnu við þessi ríki, auk samstarfs um rekstur rannsóknar- og skólastyrkjaáætlana þar sem Ísland hefur mikið fram að færa í formi sérþekkingar á jarðhita og nýtingarmöguleika hans. Auk Ungverjalands verða einnig reknar jarðhitaáætlanir í Rúmeníu og Portúgal vegna Azor-eyja.
Orkustofnun hefur verið tilnefnd sem samstarfsaðili um hönnun og rekstur jarðhitaáætlana á vegum Þróunarsjóðsins.