Utanríkisráðherra veitir styrki til félagasamtaka vegna neyðaraðstoðar á Filippseyjum
Utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita allt að 45 m. kr. til íslenskra félagasamtaka sem sækja um styrki til neyðaraðstoðar á hamfarasvæðunum á Filippseyjum.
Fellibylurinn Haiyan sem reið yfir Filippseyjar 8. nóvember sl. olli mesta tjóni sem landið hefur orðið fyrir í manna minnum. Áætla stjórnvöld að um 5200 manns séu látnir, 26.000 slasaðir og að 3,5 milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimli sín. Nálægt 226 þúsund manns hafast við í bráðabirgðaskýlum.
Svæðisbundin félög og stofnanir vinna nú að samhæfingu aðgerða og njóta við það liðsinnis alþjóðlegra samtaka. Íbúarnir eru háðir matvælaaðstoð sem sveitarfélög á Filippseyjum veita með stuðningi fjölmargra félagasamtaka og stofnana SÞ. Auk matargjafa þarf að styðja verst settu svæðin við að koma sem fyrst upp húsaskjóli fyrir íbúa, endurbyggja skóla og koma atvinnulífi af stað þannig að íbúarnir geti séð sér farborða, auk þess sem mikil þörf er fyrir heilbrigðisþjónustu til að veita aðhlynningu og áfallahjálp og koma í veg fyrir farsóttir.
Í viðbót við þær ríflega 12 m. kr sem þegar hefur verið úthlutað til Matvælaáætlunar SÞ hefur utanríkisráðherra ákveðið að ráðstafa allt að 45 m. kr. til íslenskra félagasamtaka sem sækja um styrk til neyðaraðstoðarverkefna á svæðinu. Fylgt er verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við frjáls félagasamtök við úthlutun styrkja.
Umsóknum þarf að skila til utanríkisráðuneytisins eigi síðar en mánudaginn 9. desember kl. 9:00 á netfangið: [email protected].